Birta og Salka, félagsmiðstöðvar aldraðra Ábendingar um ólöglega starfsmanna- aðstöðu, skort á viðhaldi og klóaklykt
„Mikilvægt er að taka athugasemdir öldungaráðs er varðar matarmál og opnunartíma félagsmiðstöðva fólksins alvarlega. Þá er sérstaklega mikilvægt að fá fram upplýsingar um ábendingar er varðar ólöglega starfsmannaaðstöðu, skorti á viðhaldi, klóaklykt og óboðlega aðstöðu í kjallara félagsmiðstöðvarinnar Sölku. Það hlýtur að teljast alvarlegt að öldungaráð telji Akureyrarbæ ekki uppfylla lagaskyldu sína er varðar aðgang að félags- og tómstundastarfi við hæfi aldraða,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, S-lista í bókun sem hún lagði fram á fundi bæjarráðs.
Tilefnið var bókun fulltrúa Félags eldri borgara, EBAK í öldungaráði Akureyrarbæjar, Hallgríms Gíslasonar og Úlfhildar Rögnvaldsdóttur sem þau lögðu fram við umræður um stöðu í félagsmiðstöðvunum Birtu og Sölku.
Í næst neðsta sæti
Fram kemur í bókun Hallgríms og Úlfhildar að þjónusta við eldri borgara hefði verið í næstneðsta sæti hjá Akureyrarbæ í síðustu þjónustukönnunum sem Gallup hefur gert fyrir sveitarfélögin. „Fyrir því liggja margar ótilgreindar ástæður, nokkrar þeirra snúa tvímælalaust að félagsmiðstöðvunum,“ segja þau.
Bærinn stendur öðrum sambærilegum sveitarfélögum langt að baki varðandi matarmál, þar sem boðið er upp á mat alla virka daga, en á Akureyri einungis þrjá virka daga í viku. Þá var opnunartími miðstöðvanna styttur nýlega og er opið til 13 á föstudögum, en aðra virka daga til 15.45. Yfir sumarið er eingöngu opið til kl. 13 utan þess að lengur er opið einn dag í annarri miðstöðinni.
Klóaklykt þegar gengið er í salinn
„Starfsmannaaðstaðan í Birtu er ólögleg og þarf að bæta þar úr hið fyrsta. „Viðhaldi hefur ekki verið sinnt þar sem skyldi og er klóaklykt þar þegar gengið er inn í salinn,“ segja þau en salurinn hafi þótt of lítill árið 2005 þegar starfsemi fluttist þangað. Á þeim tíma hefði eldri borgurum fjölgað umtalsvert og eigi enn eftir að fjölga.
Þá segja þau kjallara í Sölku óboðlegan undir félags- og tómstundastarf og flutningur á hluta af starfsemi Punktsins úr Rósenborg upp í Víðilund á sínum tíma hafi verið hæpin aðgerð. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga ber þeim að tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. „Því miður vantar mikið á það hjá Akureyrarbæ. Sérstaklega á það við um húsnæði undir starfsemina og mikla starfsmannaveltu.“
Bæjarráð fjallar um þessa stöðu á næsta fundi sínum.