Bernsku minnar skaflar
Urður Snædal heldur um Áskorendapennan að þessu sinn.
Þegar ég var lítil stelpa á Jökuldalnum, fyrir ívið fleiri árum en ég kæri mig um að rifja upp á opinberum vettvangi, þá snjóaði heilt yfir miklu meira en nokkurn tímann núna. Við bjuggum á efri hæðinni í húsinu okkar og ég man eftir því að hafa setið uppi á skafli fyrir utan glugga og horft beint inn í stofuna okkar. Einhvern tímann þurfti líka að moka sig út úr bænum og snjógöngin náðu upp á miðja gluggana á efri hæðinni.
Börnin mín góluðu af undrun og héldu að ég væri snarbrjáluð þegar ég sagði þeim frá því að þegar ég var 6 eða 7 ára hefði ég einhvern tímann verið á fullu að leika mér í snjónum, sem fólst þann daginn aðallega í því að príla upp á fjárhúsþakið, ganga eftir mæninum og kasta mér svo fram af gaflinum.
Augnaráðið sem ég fékk frá þeim þegar ég bætti því við að svo hefði ég tekið heimilishundinn traustataki og skutlað honum fram af var fullt skelfingar og vantrausts. Enda var ég fljót að bæta því við söguna að við húsgaflinn hefði vissulega verið margra metra hár skafl úr dúnmjúkum snjó. Þetta var eins og að láta sig falla á fiðursæng.
Honum Trygg mínum var engu að síður ekki skemmt og vildi mest lítið við mig tala næstu klukkutímana á eftir. Eftir á að hyggja skil ég það mjög vel og ég myndi ekki láta mér detta það í hug í dag að láta svona grey taka flugið. En á þeim tíma langaði mig bara að deila gleðinni með honum. Sám, sem var hinn hundurinn á heimilinu, réði ég ekki við þannig að hann slapp við allar slíkar æfingar.
En þetta er liðin tíð og börnin mín eiga væntanlega aldrei eftir að upplifa þessa kitlandi skelfingu sem fylgir því að láta sig fljúga fram af fjárhúsgafli og lenda svo örugg í snjóhaug. Það freistar þeirra heldur ekki vitund að skutla okkar hundum í slíka ferð.