20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bergið Headspace, ráðgjafasetur fyrir ungt fólk á Akureyri
„Starfsemin fer vel af stað hjá okkur og ljóst að þörf er fyrir þessa þjónustu,“ segir Erla Lind Friðriksdóttir ráðgjafi Bergsins á Akureyri, en Bergið Headspace er ráðgjafasetur fyrir ungt fólk á aldrinum 12 til 25 ára. Bergið var stofnað árið 2019 og hefur verið starfandi síðan á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemin hófst á Akureyri í byrjun þessa mánaðar og er staðsett í Íþróttahöllinni á Akureyri, í sama húsnæði og Virkið.
Erla Lind segir að hún hafi kynnt Bergið m.a. fyrir námsráðgjöfum í framhaldskólum og í Háskólanum á Akureyri og einnig verði starfið kynnt fyrir þá sem hafa með elstu bekki í grunnskóla að gera.
„Ungmennum gefst kostur á að koma til okkar ef þeim finnst að þeir þurfi að tala um eitthvað sem á þeim hvílir og það getur verið í raun hvað sem er. Hjá okkur hafa þau aðgang að fagfólki og þjónustan er ókeypis. Allir koma til okkar á eigin forsendum og stýra ferðinni. Um er að ræða lágþröskuldaþjónustu, sem þýðir að þeir sem til okkar koma þurfa ekki að vera með neinar greiningar eða tilvísanir til þess að fá þjónustu,“ segir Erla Lind. „Oft vilja ungmennin bara spjalla við einhvern utanaðkomandi og fá ráðgjöf um framhaldið.“
Misalvarleg mál
Hún segir að þau ungmenni sem leiti til Bergsins beri upp misalvarleg mál, en ekkert vandamál sé of lítið eða stórt til að um það megi ræða. „Ungmennin geta leitað til okkar með í raun hvaða mál sem þeim liggur á hjarta og hafa áhyggjur af. Vandinn sem þau eru að glíma við er allra handa. Við skimum fyrir kvíða, þunglyndi og streitu og vissulega eru nokkuð margir sem skora hátt á þeim lista en aðrir eru með vægari einkenni. Það er allur gangur á því,“ segir Erla Lind.