„Beitum okkur í stað þess að barma okkur“

Hagsmunasamtök barna á Húsavík stóðu fyrir dagskrá fyrir börn í tilefni að Bíllausa deginum á dögunu…
Hagsmunasamtök barna á Húsavík stóðu fyrir dagskrá fyrir börn í tilefni að Bíllausa deginum á dögunum á Regnbogabraut þar sem komið var upp hjólabraut fyrir börnin. Um 150 manns mættu og virtust allir skemmta sér hið besta. Mynd/ Aðsend.

Þann 1.júlí síðastliðinn kom saman hópur í tilefni af stofnun Hagsmunasamtaka barna á Húsavík. Hvatinn að stofnun samtakanna var að nýta samtakamátt foreldra, forráðamanna og samfélagsins alls til þess að bæta lífskjör barna á svæðinu, hvort sem það snýr að öryggi, menntun, afþreyingu eða tómstundum.

Flexi

Vel var mætt á fundinn og alls skráðu sig 21 í samtökin. Það var kosið í stjórn samtakanna, auk þess sem samþykktir samtakanna voru skrifaðar. Það eru þau Axel Árnason, Brynja Rún Benediktsdóttir, Elena Martinez, Elva Héðinsdóttir og Svava Hlín Arnarsdóttir sem skipa stjórnina og Benedikt Þorri Sigurjónsson, Guðný Ósk Agnarsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir sem skipa varastjórn. Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir stjórnarkjör.

Umferðaröryggi var kveikjan

Axel Árnason í stjórn samtakanna segir í samtali við Vikublaðið að hugmyndina hafi kviknað í kringum öryggismál barna þeirra  sem að stofnun samtakanna standa. En þau eiga það sameiginlegt að eiga börn í skýinu svokallaða en það er gámaeiningahús við Borgarhólsskóla sem hýsir 1. bekk skólans. Axel segir að þau hafi viljað beita sér fyrir að bæta öryggi barnanna á skólalóðinni með því að draga úr bílaumferð, en nú hefa verið settar upp lokanir fyrir bílaumferð inn á skólalóðina.

„Við höfðum áhyggjur af öryggi þeirra vegna bílaumferðar. En okkur er mjög annt um það að við séum í stuði og það sé skemmtilegt hjá okkur. Ekki bara einhver leiðindi. Þannig að við ákváðum að skella í þessi samtök til  að stinga á einhver kýli en með gleðina og jákvæðnina að vopni,“ segir Axel og bætir við að saman sé hægt að koma miklu í verk í þágu barna.

Vilja nota samatakamáttinn

„Við getum gert svo margt gott ef við stöndum saman og beitum okkur á jákvæðan hátt í þeim málum sem þarf að taka á í nærsamfélaginu hvað varðar börnin okkar. Við sjáum til dæmis fyrir okkur að vinna saman að því að stuðla að fjölbreyttari tómstundum og afþreyingu fyrir þau börn sem ekki finna sig í því sem er í boði nú þegar, veita aðhald i öryggismálum og eiga yfirhöfuð gott samtal við sveitarstjórn og skólayfirvöld, um allt sem þar fer fram. Eins og segir í auglýsingunni;  beitum okkur í stað þess að barma okkur í litlum hópum úti í bæ. Það er svona leiðarstef þessara samtaka. Það er mikil stemning og meðbyr hjá okkur.“

Þá sendi fundurinn frá sér ályktun er varðar öryggi barna, þar sem hvatt er til þess að unnin verði stefna og aðgerðaáætlun um umferðaröryggi. Ályktunin er svohljóðandi: „Hagsmunasamtök Barna á Húsavík leggja til að unnin verði stefna um umferðaröryggi barna á Húsavík og í framhaldinu aðgerðaáætlun sem tryggir að allt skipulag, öll hönnun og allar framkvæmdir innan Húsavíkur verði gerðar með hag barna að leiðarljósi. Markvisst verði unnið að því að bæta umferðaröryggi og aðstöðu fyrir öll börn, óháð ferðamáta. Samtökin eru með Facebook-síðuna: Hagsmunasamtök barna á Húsavík, auk þess sem hægt er að senda tölvupóst á hsb.husavik@gmail.com til þess að ganga í samtökin. Skráning í samtökin er gjaldfrjáls og ekki eru innheimt félagsgjöld. Samtökin hvetja foreldra og öll þau sem láta sig hagsmuni barna á svæðinu varða, að skrá sig í samtökin.

 

Nýjast