20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Barnasafn þar sem má fikta
Stefnt er að opnun nýrrar viðbyggingar Könnunarsafnsins á Húsvík, árið 2019 eins og Vikudagur sagði frá fyrir skemmstu en þá verða 50 ár liðin frá því að menn tóku sín fyrstu skref á tunglinu. Aðal sýningarmunur hinnar nýju byggingar verður eftirlíking í fullri stærð af tunglferjunni sem Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu á tunglinu árið 1969.
Blaðamaður Vikudags settist niður með hjónunum Örlygi Hnefli Örlygssyni framkvæmdastjóra safnsins og Jóhönnu Ásdísi Baldursdóttur, verkefnastjóra og spjallaði við þau um framkvæmdirnar.
100 milljóna fjárfesting
„Við erum að setja af stað ansi stórt verkefni. Það sem um ræðir er að Hlöðufell gamla þar sem safnið er til húsa verður kannski svona rúmlega einn fjórði af þessu nýja húsi þegar það er tilbúið. Kostnaður er áætlaður um 100 milljónir króna,“ segir Örlygur. Vinna er þegar komin vel á veg við að fjármagna verkefnið og þegar þetta er ritað er búið að tryggja fjármögnum fyrir um þriðjungi af heildarverkinu.
Þau fóru fyrr á þessu ári til Bandaríkjanna til að hitta áhugasama aðila um verkefnið. Meðal þeirra aðila er fjölskylda Neil Armstrong, sem fyrstur manna steig fæti á tunglið. „Þau hafa verið mjög áhugasöm um að hjálpa okkur við þetta,“ segir Örlygur.
Það er ljóst að verkefnið er stórt í sniðum en meðal þess sem lögð verður áhersla á er að höfða í meiri mæli til barna. „Við höfum fundið fyrir því í fyrsta lagi að það er vöntun á afþreyingu fyrir yngstu hópana hér á svæðinu. Það sem einnig hefur gefið okkur svo mikið er það samstarf sem við höfum átt við skólana. Þess vegna langar okkur til að helga alveg kjallarann veglegri barnavísindasýningu,“ segir Örlygur.
Börnum verði leyft að fikta
Það er Jóhanna sem hefur yfirumsjón með barnasýningunni en hún hefur gengið með þessa hugmynd í maganum alveg frá því hún bjó í Þrándheimi sem barn. „Þar er einmitt heilt safn sem er tileinkað börnum og vísindum, en þar má fikta í öllu. Þetta er mér ennþá svo minnisstætt,“ segir Jóhann og bætir við: „Börn hafa svo mikla snertiþörf. Maður þekkir það sjálfur þegar maður fer með yngstu börnin á söfn,- maður gerir ekki annað en að halda þeim frá hlutunum og þá eru þau svo fljót að missa áhugann. Börn læra með því að snerta – og fikta. Þau hafa þessa þörf. Eins og safnið okkar er núna þá er ekkert slíkt í boði en við höfum verið að taka á móti hópum bæði úr leikskólanum og grunnskólanum. Við reynum eins og hægt er að sýna þeim á þeirra forsendum en safnið er bara sniðið að fullorðnum eins og staðan er í dag.“
Jóhanna Ásdís hefur starfað í ferðaþjónustu síðastliðin 7 ár og segist hafa fundið mjög fyrir því að auka mætti framboð á afþreyingu fyrir börn og unglinga á Húsavík. Bæði krakka úr heimabyggð sem og börn sem heimsækja bæinn með foreldrum sínum sem ferðamenn.
„Þegar Örlygur fór að segja mér frá hugmyndum sínum um að stækka safnið þá sagði ég strax að mig langaði til að fá eina hæð fyrir börnin,“ segir Jóhanna.
Fjölbreyttar sýningar
Sýningin sem um ræðir mun samanstanda af tilraunum, þrautum og tækjum. „Til dæmis verður hægt að mæla þyngd sína á mismunandi plánetum sólkerfisins, upplifa hvernig hreyfing hefur áhrif á hljóðbylgjur, hlusta á tónlist með tönnunum og sjá hvernig ljósgeisli brotnar,“ útskýrir Jóhanna.
Hún segir jafnframt að þau hafi farið af stað með vísi af þessari sýningu árið 2014 og fengið til þess styrk til að komast af stað. „En okkur langar að taka þetta alla leið núna. Með stækkuninni er komið tækifæri til þess og þar sem við erum að endurhanna eldri sýninguna að miklu leyti þá gefst einnig tækifæri til að gera núverandi sýningar áhugaverðari fyrir börn.“
Örlygur talar um að fyrirhugað sé að í öllum nýju sýningarýmunum verði eitthvað fyrir börnin. „Þó að það sé sér deild sem er tileinkuð börnum þá verði inní öllum rýmunum eitthvað fyrir börn sem er sér merkt á þá leið að það megi fikta í því,“ segir Örlygur sem leggur enn og aftur áherslu á mikilvægi þess að börn fái tækifæri til að fikta og rannsaka með höndunum. „Við erum tvisvar búin að fara á vísindasafnið í London. Þar er barnasýningin það spennandi að þegar maður horfir á salinn þá er eiginlega ekkert minna af fullorðnum að leika sér. Ef þetta er vel gert þá sameinar þetta alla aldurshópa. Því þegar allt kemur til alls þá höfum við fullorðna fólkið ekkert síður þörf fyrir að fikta,“ segir hann og hlær. „Þetta er líka hugsað út frá foreldum, að þau geti notið þess að koma með börnin án þess að vera endalaust að hafa áhyggjur,“ skýtur Jóhanna inn í.
Barnasýningin verður sem fyrr segir staðsett í kjallara nýja hússins en hluti rýmisins verður opinn upp á næstu hæð. Þar mun aðlasýningarmunurinn, tunglferjan standa upp úr. Einnig verður þar vísindasýning fyrir börn og kvikmynda- og fyrirlestrarsalur.
Þá verður í nýju byggingunni sýning um landkönnuðinn Vilhjálm Stefánsson, en sú sýning er unnin í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og The Explorers Club í New York.
Stígandi í aðsókn
Örlygur segir hafa verið stíganda í aðsókn á safnið frá því það opnaði en viðurkennir að byrjunin hafi farið hægar af stað en hann reiknaði með. Hann taldi upphaflega að staðsetningin myndi skila sér en reynslan sýni að fólk þurfi helst að vera búið að ákveða að fara í safnið áður en það kemur í bæinn til þess að það skili sér. „Þess vegna er afar mikilvægt að standa vel að kynningarmálum,“ segir hann.
„Við fengum mikla athygli í fyrra vegna könnuðahátíðarinnnar sem við vorum með og ferðaskrifstofur fóru þá að kveikja á perunni með okkur. Það telur mjög hratt þegar við erum að fá heilu rúturnar með hópa sem við höfðum ekki verið að fá áður. Þetta var fyrst og fremst lausatraffík til að byrja með,“ segir Örlygur.
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs en tunglfarinn Charlie Duke mun taka fyrstu skólflustunguna ásamt skólabörnum úr Þingeyjarsýslum, þegar hann heimsækir safnið í sumar. „Við ætlum að vera búin með 70% af fjármögnun verkefnisins áður en við hefjumst handa. En það þarf að vinnast hratt því við ætlum að opna 2019,“ segir Örlygur ákveðinn.