20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bangsímon kemur á Mærudaga
Leikhópurinn Lotta sýnir Bangsímon á Mærudögum á Húsavík í sumar. Sýningin verður sunnudaginn 28. júlí kl 13:00 í Skrúðgarðinum á Húsavík.
Síðan heimsfaraldur skall á, hefur Leikhópurinn Lotta ekki sett upp splunkunýtt verk eins og öll starfsár fram að því. Það er því fagnaðarefni að í ár taka þau upp þráðinn á ný og bjóða upp á risastóra gleðibombu í glænýjum íslenskum söngleik - Bangsímon.
Flestir kannast við vinalega bangsann hann Bangsimon, vini hans Gríslinginn, Kaniku, Eyrnaslapa og Ugluna svo þau þarf vart að kynna. Í höndum Lottu hefur þessum sögum verið gefið nýtt líf og lifna persónurnar nú loksins við frammi fyrir augunum á okkur. Eins og Lottu er von að vísa eru 10 glæný íslensk lög í sýningunni, mikið af dönsum og heill hellingur af bröndurum, bæði fyrir börn og fullorðna.
Bangsímon er sýnd utandyra og því er um að gera að klæða sig eftir veðri, grípa með sér teppi að sitja á, nesti til að maula og myndavél til að taka myndir með persónunum eftir sýninguna. Sýningin er klukkutími að lengd og skipta fimm leikarar á milli sín öllum hlutverkum.
Höfundur verksins er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er tólfta verkið sem hún semur fyrir hópinn, hún sér einnig um leikstjórn. Leikhópurinn er einnig aðdáendum Lottu að góðu kunnur en hann samanstendur af Andreu Ösp Karlsdóttur, Sigsteini Sigurbergssyni, Stefáni Benedikt Vilhelmssyni, Sumarliða V Snæland Ingimarssyni og Þórunni Lárusdóttur.