20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bakraddir kvenfrelsis rýma sviðið
Það má ganga út frá því sem vísu að frumsýningargestir, sem mættir voru til að sjá sýningu Leikfélags Akureyrar Kvenfólk eftir og með Hundi í óskilum, hafi velt því fyrir sér hvernig þeir félagar Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson myndu fara yfir kvennasöguna á hundavaði með viðlíka hætti og þeir hafa áður gert hlutum Íslandssögunnar skil. Á forsíðu leikskrár segir að um sé að ræða „drepfynd[na] sagnfræði með söngvum“ og lét það nærri lagi.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um kjark höfunda verksins. Með því að leggja til atlögu við kvennasöguna, þótt í stuttu máli sé, hætta þeir sér inn á svæði sem samkvæmt „skilgreiningu” verður að teljast því sem næst „lífshættulegt“ fyrir karlmenn þótt á besta aldri séu. Allt fer þetta þó vel af stað enda verið að fjalla um óstaðfest landnám írskra einsetumanna sem vissu ekkert verra en vesenið og ófriðinn af bölvuðu kvenfólkinu. Slegið var á létta strengi og leikhúsgestir fræddir um breytingar á högum „Hundsins” sem nú væri orðin alvöru leikhús með rólu og „alles” að hætti Vesturports. Þótt leikmynd og umgjörð öll sé nú með veglegri hætti en á fyrri sviðsverkum „Hundsins” þá er uppbygging leiksins svipuð því sem var í „Saga þjóðar“ og „Öldin okkar“.
Þegar ljóst er orðið að íþyngjandi reglugerð um landnám kvenna nær ekki tilgangi sínum þ.e. að halda Fróni friðsömu og kvennmannslausu geta karlar lítið gert annað en sættast við að konur eru komnar til að vera. Það er þó ekki ætlunin að gera þeim lífið óþarflega létt og því fer litlum sögum af hlutskipti þeirra fyrr en komið er fram á nítjándu öld. Reyndar er brugðið upp mynd af stöðu kvenna á því mikla umbreytingaskeiði sem árin eftir frönsku byltinguna (1789) voru en þá gerðu Frakkar heimsbyggðinni heyrin kunnugt hver grundvallarréttindi (karl)mannsins eru. Þótt Frakkar hefðu ekki tvínónað við að aflífa helstu kvenhetjur sínar þá létu þeir sig þó hafa það að reisa þeim veglega minnisvarða á meðan að Islendingar reyndu hvað þeir gátu til að þagga frelsisbaráttu hérlendra kvenna í hel þótt á endanum væru örfá „öngstræti“ skýrð í höfuðið á þeim miklu kvenskörungum sem ruddu veginn.
Með skemmtilegri tónlist leikinni á skondin og skrítin hljóðfæri ferðuðumst við frá einu ártalinu til annars í fylgd með Vilhelmínu Lever, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Ingibjörgu Bjarnason og þegar nær dró í tíma Vigdísi Finnbogadóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Atriðið þegar „Hundurinn” spyr hvort Jóhanna komi ekki örugglega aftur hitti beint í mark eins og fjölmörg önnur sniðugheit þeirra félaga. Þótt ekki væri allt jafn fyndið var upptaktur verksins nógu kraftmikill og skemmtilegur til að fleyta salnum hlæjandi eða í það minnsta skælbrosandi í gegnum veikari atriði svo sem tónverk eftir Bach framið á g-streng.
Ef nefna á einstaka þætti verksins sem upp úr stóðu þá er helst til að nefna þuluna um ömmu Hjörleifs, Kate Bush lagið Babooshka, útvarpsleikritið „Kona í blokk og önnur í raðhúsi” en algjör toppur var þó lokaatriðið flutningur lagsins „You don't own me“ með hljómsveit skipaðri þeim Áslaugu Maríu Stephensen (trommur), Gunni Vignisdóttur (bassa), Unu Haraldsdóttur (hljómborð) og Margréti Hildi Egilsdóttur (söngur). Þegar hljómsveitin kom fram á sviðið stigu þeir Eiríkur og Hjörleifur til baka og sungu bakraddir við magnaðan flutning stúlknanna á kvenfrelsis-poppi sem samið var í aðdraganda hippatímans.
Ekki er hlaupið að því að skilgreina sýninguna „Kvenfólk” en segja má að þarna sé á ferðinni einhverskonar uppstand í tali og tónum. Mörg atriðin hefðu sómt sér vel í revíu með óhefðbundnum undirtóni eða nokkuð alvörugefnum kabrett. Ágústa Skúladóttir stýrir leiknum og á hún klárlega stóran þátt í því hve vel hefur til tekist. Lárus Heiðar Sveinsson (ljósahönnun), leikhússtjórinn Jón Páll Eyjólfsson (myndbandshönnun), Íris Eggertsdóttir (leikmynd, búningar og leikmunir) og Gunnar Sigurbjörnsson (hljóðhönnun) skila öll sínu með miklum glæsibrag.
Þá er ekki annað eftir en að hvetja alla þá sem hafa gaman að góðu leikhúsi til að drífa sig á sýningu sem ber þess óræð merki að Akureyri nálgast það að vera sjálfbært þegar kemur að sviðsverkum sem sýna okkur í spegil úreltra viðhorfa og aldagamals en síendurtekins misréttis.
-Ágúst Þór Árnason