Bærinn að hrekja okkur burtu af svæðinu
„Þetta mál er allt hið furðulegasta, vægast sagt, en við eigum eftir að bregðast við síðustu bókun skipulagsráðs,“ segir Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri Bústólpa. Skipulagsráð Akureyrarbæjar fjallað um lóðina við Norðurtanga 7 og 9 á fundi sínum nýverið, en fyrir liggur að bæði Slippurinn Akureyri ehf. og Bústólpi ehf hafa óskað eftir sama svæði við Norðurtanga fyrir framtíðaruppbyggingu.
Að mati meirihluta skipulagsráðs er starfsemi Slippsins háðari nálægð við hafnarsvæði en starfsemi Bústólpa. Meirihluti ráðsins hafnaði því erindi Bústólpa um nýja lóð við Norðurtanga og fól skipulagsstjóra að ganga til viðræðna við fyrirtækið um hentuga staðsetningu fyrir starfsemina.
Hólmgeir segir að Akureyrarbær hafi gert nýtt skipulag á svæðinu við Norðurtanga en það hafi þó ekki enn tekið gildi. Um sé að ræða svæði þar sem Bústólpi eigi lóð, þ.e. þar sem gömlu áburðarbraggarnir standa. „Bærinn er í raun með þessu að leggja upp í þá vegferð að hrekja okkur burt af svæðinu ef af þessu verður og veita Slippnum nýjar lóðir þar sem liggja yfir okkar núverandi svæði,“ segir hann.
Sótt fyrst um í júní 2019
Bendir Hólmgeir á að umsókn frá fyrirtækinu hafi legið inni hjá Akureyrarbæ frá því í júní árið 2019, en þá óskaði Bústólpi eftir lóðum númer 7 og 9 við Norðurtanga með það að markmiði að byggja nýtt allt að 2 þúsund fermetra húsnæði í stað þeirra mannvirkja sem fyrir eru á staðnum. Skipulagsráð frestaði erindinu.
Í október árð 2020 ítrekaði Bústólpi ósk sína um nýja lóð undir starfsemi sína á Norðurtanga, en jafnframt var þá líka lögð frá ósk frá Slippnum um lóðir og skipulag á svæðinu. Málin var einnig frestað á þeim tíma. „Við höfum verið með umsókn inni hjá bænum í rúm fjögur ár um að fara í uppbyggingu og endurbætur á þessu svæði eða löngu áður en Slippurinn fékk hugmynd um að sækja um þetta pláss sem hefur aldrei verið auglýst af bænum,“ segir Hólmgeir.
Bústólpi setti inn umsókn um lóðina eftir ráðleggingu frá Skipulagsdeild bæjarins og var hún þannig hugsuð að fyrirtækið gæti áfram verið með starfsemi á svæðinu, en væri að fá nýju lóðirnar í stað þeirra sem það er með nú og eru enn þinglýstar á nafni Bústólpa að sögn Hólmgeirs.
Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri Bústólpa