20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Auto ehf fær tímabundið afnot af lóð við Krossanes
Auto ehf. hefur fengið lóð í Krossanesi til tímabundinna afnota og þangað eru komnir um það bil 30 bílar bæði af lóðinni við Hamragerði og annars staðar úr Akureyrarbæ. Bílum á lóðinni við Hamragerði 15 hefur fækkað talsvert að undanförnu en þrátt fyrir það er enn nokkur fjöldi bíla innan lóðarmarka. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur unnið að málinu um langt skeið.
Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segir að á fyrstu fimm mánuðum þessa árs, 2024 hafi verið límt á 150 númerslausa bíla innan bæjarmarka Akureyrarbæjar, þar af voru 36 teknir í vörslu sveitarfélagsins og af þeim eru 26 á vegum Auto ehf. „Á undanförnum dögum og vikum hefur númerslausum bílum sem HNE hefur haft afskipti af fækkað verulega,“ segir Leifur.
Geymslusvæði mikilvæg en reglur séu skýrar
„Heilbrigðisnefnd hefur alloft bent á nauðsyn þess að til staðar séu geymslusvæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og mér líst því vel á hugmyndir Umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar um slíkt svæði í Sjafnarnesi. Það er mikilvægt að settar séu skýrar reglur varðandi umgengni á svæðinu og ástand þeirra hluta sem þar eru geymdir,“ segir Leifur. Umhverfis- og mannvirkjaráð fjallaði á dögunum um erindi um lóð við Sjafnarnes sem yrði geymslusvæði. Segir í bókun ráðsins að mikilvægt sé að bjóða upp á geymslusvæði á Akureyri til að tryggja einstaklingum og fyrirtækjum svæði til geymslu fyrir ýmislegt til lengri og skemmri tíma. Þannig væru einnig skapaðir möguleikar til að fegra bæinn. Ráðið sótti því um lóðina við Sjafnarnes og fól sviðsstjóra að leggja fram kostnaðarmat vegna verkefnisins.
Leifur segir að mikilvægt sé að halda því til haga að vandamálið varðandi bíla í eigu og á vegum Auto ehf. innan bæjarmarka Akureyrarbæjar undanfarin ár sé ekki til komnir vegna skorts á geymslusvæðum á vegum bæjarins eða annarra sveitarfélaga. „Þar ber fyrirtækið sjálft ábyrgð og engin annar.“