Auto ehf bregst ekki við tilmælum HNE um tiltekt á lóð
Ekki hefur verið brugðist við kröfum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um tiltekt á lóð fyrirtækisins Auto ehf. á Setbergi á Svalbarðsströnd, en farið var fram á slíkt í byrjun febrúar síðastliðnum. Forgangsverkefni var að fjarlæga ökutæki og aðra lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Á sama fundi voru forsvarsmenn fyrirtækisins hvattir til að geyma ökutæki sín á til þess ætluðum svæðum. Númerslausum bílum í eigu fyrirtækisins er enn komið fyrir hér og hvar innan bæjarmarka Akureyrar, en frá áramótum hafa um 20 bílar í eigu félagsins verið teknir í vörslu bæjarins.
Frestur til 1. júní
Heilbrigðisnefnd hefur gefið forsvarsmönnum Auto frest til 1. júní næstkomandi til að taka til á lóð sinni og fjarlægja bíla og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Verði ekki brugðist við fyrir þann tíma íhugar nefndin að beita þvingunarúrræðum í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eins ítrekar nefndin þau tilmæli að ökutæki í eigu og umsjón Auto séu geymd á til þess ætluðum svæðum á vegum fyrirtækisins.
Flokkast ekki sem sóðaskapur á almannafæri
„Auto ehf. hefur ekki gengið nægilega vel að halda utan um bílaflota fyrirtækisins en bílarnir eru staðettir víða um Akureyrarbæ og í nágrannasveitarfélögunum, bæði með og án númera. Úrræði HNE ná eingöngu til bíla sem ekki eru á númerum, en það eru fjölmargir bílar á vegum Auto víðsvegar um bæinn sem eru á númerum og um þá bíla gilda umferðarlög. Bílar á númerum flokkast með öðrum orðum ekki sem sóðaskapur á almannafæri þrátt fyrir að þeir geti verið í afar misjöfnu ástandi,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri HNE
Límt á rúmlega 100 númerslausa bíla frá áramótum
Hann segir ástand varðandi númerslausa bíla á Akureyri lítið að lagast. Fyrstu 4 mánuði ársins var límt á rúmlega 100 númerslausa bíla í bænum og eigendum þeirra gefin frestur til þess að fjarlægja þá. Til samanburðar var límt á 39 bíla á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2023. Bílar á vegum Auto ehf. hafa verið áberandi í vetur og 3 af hverjum 4 bílum sem teknir hafa verið í vörslu Akureyrarbæjar í kjölfar álíminga eru á vegum fyrirtækisins.