20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Athyglisverð sýning í Verksmiðjunni á Hjalteyri
Þann 3. ágúst næstkomandi opnar áhugaverð sýning í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Sýningin stendur yfir í heilan mánuð eða til 3. september.
Á sýningunni Hverfing/Shapeshifting í Verksmiðjunni á Hjalteyri mætast listamenn frá Íslandi og Bandaríkjunum til þess að skapa staðbundin innsetningarverk inn í rýmið.
Verksmiðjan, saga hennar og nálægð við Norður Íshafið og náttúruna þjónar hlutverki bakgrunns en einnig ramma fyrir ný verk listamannanna, sem að tengja við stef menningarlegra og náttúrulegra gilda, en einnig yfirvofandi ógnvænlegar breytingar vegna hnattrænnar hlýnunar – áhrif þeirra og ófyrirsjáanlegar afleiðingar á samfélög, umhverfi og náttúru.
Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru: Alex Czetwertynski, Anna Eyjólfsdóttir, Deborah Butterfield, Emma Ulen Klees, Gústav Geir Bollason, Hunter Buck, Jessica Stockholder, John Buck, Kristín Reynisdóttir, Mary Ellen Croteau, Pétur Thomsen, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Pari Stave, listfræðingur og sýningarstjóri í Metropolitan listasafninu í New York.
Verksmiðjan á Hjalteyri hlaut viðurkenningu Eyrarrósarinnar 2016 og var nýlega nefnd sem einn af 10 áhugaverðurstu sýningarstöðum landsins í umfjöllun menningarvefsins Culture trip. Hún var reist af miklum stórhug á fyrri hluta síðustu aldar. Í dag myndar hún svipmikinn bakgrunn við stórar og kraftmiklar innsetningar listamanna. /epe