Árshátíð Menntaskólans á Akureyri
Á morgun föstudagskvöld fer árshátíð Menntaskólans á Akureyri fram í Íþróttahöllinni á Akureyri. Hátíðin er glæsileg og allur undirbúningur hennar er í höndum nemenda sjálfra og tekur nokkrar vikur, þegar allt er talið. Tugir nemenda vinna að skreytingum og margir vinna að því að semja og æfa alls kyns skemmtiefni, m.a. tónlistaratriði, dans, söng og leik. Aðrir sjá um að skipuleggja veislusalinn í Höllinni, leggja á borð og skreyta, og tæknimenn sjá til þess að allir fái notið þess sem í boði verður. Öll þessi störf eru undir regnhlíf stjórnar Hugins, skólafélags MA. Formaður Hugins, inspector scholae, er Björn Kristinn Jónsson.
Hátt í þúsund manns, nemendur, kennarar og starfsfólk, munu mæta í hátíðarbúningi í Höllina og njóta kvöldsins saman. Veitingahúsið Bautinn sér um matinn, en nemendur sjá um að þjóna til borðs, leika tónlist undir borðhaldi og flytja skemmtidagskrá. Kvöldinu lýkur svo með dansleik en þar leika Moses Hightower, Friðrik Dór og 101 Boys fyrir dansi í aðalsal, en Þuríður og hásetarnir leika fyrir gömlu dönsunum á efri hæðinni.
Vímulaus hátíð
Árshátíð MA er stærsta vímulausa hátíð sem haldin er árlega á Íslandi. Hugtakið vímulaus hátíð þýðir í Menntaskólanum á Akureyri að þáttakendur hvorki neyta áfengis eða annarra vímugjafa á hátíðinni né koma þangað eftir að hafa neytt þeirra annars staðar. Það er fréttnæmt og hlýtur að teljast til góðra frétta. Góðar fréttir af ungu fólki eru ekki síður fréttir en þegar einhver vandræði koma upp. Nemendur MA telja það forréttindi að fá tækifæri til að njóta vímulausrar stórhátíðar þegar eðlilegt er talið að fólk á þessum aldri skemmti sér með öðru móti.