Arfur Akureyrarbæjar - Fyrirlestur um hringrás byggingarefna
Félagið Arfur Akureyrarbæjar stendur fyrir opnum fræðslufundi næstkomandi laugardag, 27. janúar kl. 14 í suðursal Rauða Krossins að Viðjulundi 2.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt heldur fyrirlestur undir yfirskriftinni: Hringrás byggingarefna: Umhverfisvænasta húsið er það sem ekki er byggt og óumhverfisvænast er að rífa og byggja aftur.
Í fyrirlestrinum er komið inn á hvað við getum gert til að halda okkur innan markmiða sem Ísland hefur sett sér í loftslagsmálum og hvernig það tengist meðal annars viðhaldi húsa, endurnýtingu byggingarefna og hvernig byggingararfurinn er hluti af hringrásinni. Arnhildur er stofnandi s. ap arkitekta sem leggja mikla áherslu á vistræna mannvirkjagerð sem byggir á hringrásarhugsun.
Erindi Arnhildar er hluti af fyrirlestraröð um húsvernd og endurnýtingu sem er styrkt af KEA og Norðurorku.