Árbær vann „slaginn“ um byggingarlóð á Húsavík

Húsavík í vetrarbúningi. Mynd/ Húsavíkurstofa
Húsavík í vetrarbúningi. Mynd/ Húsavíkurstofa

Athygli vakti fyrir skemmstu þegar skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings tók fyrir umsóknir frá þremur byggingaraðilum um sömu byggingarlóðina. Það er lóðin að Lyngholti 42-52. Þetta voru fyrirtækin; Trésmiðjan Rein ehf., Árbær ehf., Belkod ehf. og Dimmuborgir ehf.

Afgreiðslu umsóknanna var frestað fram að næsta fundi ráðsins sem fram fór í gær. Ráðinu hugnaðist best byggingaráform Árbæjar og lagði því til við bæjarstjórn að Árbæ ehf. verði úthlutað lóðinni. Í reglugerð segir að ef fleiri en einn umsækjandi er um sömu byggingarlóðina fyrir uppbyggingu fjölbýlis, þá beri að meta byggingaáform við afgreiðslu umsókna.

Í tilfelli Árbæjar réði byggingarmagn og áætlaður byggingartími, ákvörðun ráðsins.

Árbær áformar að byggja 6 íbúða raðhús, hver íbúð að stærð 123,5 fermetrar. Húsið verður framleitt í einingum sem fluttar verða til Húsavíkur. „Undirritaður samningur við verksmiðju gerir ráð fyrir því að framleiðsluferli séu 2 mánuðir og uppsetning og frágangur aðrir 2 mánuðir. Áætluð verklok verða í síðasta lagi mánaðarmótin ágúst/september 2022. Fullbúin hús tilbúin til sölu,“ segir í greinargerð Árbæjar með umsókninni.

Hin fyrirtækin þrjú áformuðu að byggja mun minni íbúðir eða um 70-80 fermetra og að verklok voru áætluð haustið 2023.

Skipulags- og framkvæmdaráð tók jafnframt ákvörðun  ljósi fyrirliggjandi áhuga fyrir uppbyggingu minni raðhúsaíbúða um að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi Holtahverfis. Breytingarnar felist í því að heimila að á lóðinni að Lyngholti 26-32 megi byggja sex íbúða raðhús í stað fjögurra íbúða húss eins og skipulagið gerir ráð fyrir. Byggingarfulltrúa var falið að upplýsa umsækjendur um það ferli.

Nýjast