Árangursríkt lestrarátak í Glerárskóla
Á heimasíðu Akureyrarbæjar segir frá lestrarátaki sem nemendur Glerárskóla hafa sökkt í síðustu daga.
,,Efnt var til sérstaks lestrarátaks meðal krakkanna sem sannarlega sló í gegn. Átakið varði í tvær vikur og lesið var af kappi í skólanum og heima. Á hverjum degi átaksins var birt súlurit á göngum skólans sem sýndi hversu mikið hver bekkur var búinn að lesa. Á gangi skólans og í skólastofum voru niðurteljarar sem sýndu hversu langt var eftir af átakinu. Ýmislegt var gert til þess að auka stemninguna hjá nemendum og hvetja til lestrar.
Mikil lestrarstemning skapaðist í skólanum meðan á átakinu stóð. Varla sást bóklaus nemandi. Alls lásu nemendur skólans samtals í 1.841 klukkustund sem gerir rétt um 6 klukkustunda meðallestur á nemanda og þá eru allir taldir með, þeir sem eru að byrja að lesa í fyrstu bekkjum skólans, jafnt sem fluglæsir unglingar.
Lestrarátakið var sett upp sem keppni milli bekkja. Nemendur fengu klukkur sem þeir notuðu til að skrá lestrartímann sinn. Krakkarnir í fimmta bekk lásu mest meðan á átakinu stóð eða 9,27 klukkustundir hver nemandi að jafnaði eða alls 204 klukkustundir. Krakkarnir í fimmta bekk eru því Glerárskólameistarar í lestri.
Á yngsta stigi var kappið mest hjá fjórða bekk, sem nú eru lestrarhestar yngsta stigs en þar lásu krakkarnir 5,21 klukkustund að jafnaði.
Spennan var mikil á unglingastigi en lestrarhestar stigsins þar eru nemendurnir í 10 SVB sem lásu að meðaltali 8,53 klukkustundir meðan á átakinu stóð.
Krökkunum var gert að velja bók við hæfi, helst bók sem þeim þótti krefjandi. Margir þátttakendur skráðu á klukkurnar sínar hvar þeir lásu og þar kom margt skemmtilegt fram. Nefndir voru staðir eins og í flugvél, Í Reykjavík, í sumarbústað, hjá afa og ömmu, svo eitthvað sé nefnt. Fullvíst er að átakið er mikil lestrarhvatning og auki um leið lesfærni og lesskilning nemendanna.
Starfsfólk skólans tók einnig þátt í átakinu en það átti ekki roð í lestrarþyrsta nemendur.
Að neðan eru úrslitin sett upp í súlurit.''