Árangur Völsungs gæti kallað á uppbyggingu

Ljóst er að ef Völsungur ætlar sér að leika í 1. deild á PCC vellinum á komandi tímabili, þá þarf að…
Ljóst er að ef Völsungur ætlar sér að leika í 1. deild á PCC vellinum á komandi tímabili, þá þarf að minnsta kosti að reisa stúku fyrir áhorfendur. Mynd/epe.

Karla og kvennalið Völsungs í fótbolta hefur verið að gera afar góða hluti í 2. deild í sumar og eru í bullandi baráttu um að vinna sér sæti í 1. deild að ári.

Jónar

Stelpurnar eru komnar í úrslitakeppni efstu fimm liða eftir fyrri hluta mótsins en eiga á brattan að sækja. Þær eru sem stendur í þriðja sæti með 38 stig, fjórum stigum á eftir Haukum í öðru sæti. Framundan eru tveir heimaleikir gegn toppliði KR annars vegar og gegn ÍH hinsvegar. Lokaleikurinn er svo gegn Haukum í Hafnafirði í lok september, sem gæti orðið hreinn úrslitaleikur um sæti í 1. deild.

Karlalið Völsungs er einnig í bullandi baráttu um að komast upp um deild. Liðið er sem stendur í 2. sæti með 39 stig, einu meira en Þróttur V sem er í þriðja sæti. Í dag laugardag fær Völsungur einmitt Þrótt V í heimsókn á PCC völlinn á Húsavík en leikurinn hefst klukkan 14. Með sigri tryggir Völsungur sér sæti í 1. deild að ári en lokaleikurinn er gegn KFA í Fjarðabyggð 14. september.

Spennan að magnast

Það ríkir mikil jákvæðni í fótboltanum á Húsavík og í samtali við Vikublaðið segir Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs að hann hafi fulla trú á því að félagið muni eiga lið í 1. deild karla og kvenna á næsta tímabili.

Það er ljóst að spennan verður gríðarleg á Húsavík næstu vikurnar en það yrði mikil lyftistöng fyrir fótboltann í bænum ef liðunum tekst að komast upp um deild.

Keppni í 1. deild myndi bjóða upp á mun stærri áskorun fyrir félagið á knattspyrnuvellinum enda mun sterkari deild, en slíkt afrek myndi einnig búa til annars konar áskoranir fyrir félagið því keppni í næst efstu deild kallar á auknar kröfur um aðstöðumál.

Þarf að huga að aðstöðunni

Jónas Halldór segir að verði sú raunin þurfi einfaldlega að taka á þeim málum svo félagið þurfi ekki að leika sína heimaleiki utan Húsavíkur komist það upp um deild.

„Við viljum alltaf vera í þessum pakka að spila leiki sem skipta máli. Vinna fleiri leiki en ekki og það hefur gengið eftir í sumar,“ segir Jónas um árangur meistaraflokkanna á yfirstandandi tímabili og bætir við að ef allt fari á besta veg, þurfi klárlega að ráðast í uppbyggingu á aðstöðumálum Völsungs.

Stúka fyrir 300 manns

„Það fyrsta sem svona augljóslega liggur fyrir er að það þarf að setja upp stúku fyrir 300 manns,“ segir hann.

Aðspurður segir Jónas að slík uppbygging hafi ekki verið rædd enn þá við sveitarfélagið en telur að slík umræða þurfi að fara fram fyrr en síðar.

„Það er ekkert búið að ræða þessi mál sérstaklega en sveitarfélagið er að fara vinna stefnu um íþrótta og æskulýðsmál og þetta hlýtur að koma inn í hana strax í haust,“ segir Jónas vongóður og bætir við að það væri lítill sómi í því að þurfa leika heimaleiki utan Húsavíkur.

Verði að fá heimaleiki á Húsavík

„Eins og staðan er akkúrat núna, ef við verðum með liði í 1. deild á næsta tímabili þá þyrftum við að spila okkar heimaleiki einhvers staðar annars staðar en á Húsavík, ég held að maður fái ekki neinar undanþágur frá KSÍ. Þessi lið sem hafa verið að koma upp eins og á Sauðárkróki þegar þær fóru upp stelpurnar þar, þá var bara keypt stúka og sett upp,“ útskýrir Jónas full viss um það að lítið mál sé að koma upp stúku fyrir næsta tímabil sem uppfylli kröfur sé vilji fyrir því.

„Auðvitað ef að annað eða bæði liðin fara upp þá aukast kröfur um umgjörð og utanumhald og það fyrsta sem kikkar inn er þessi aðstaða fyrri áhorfendur, það er mjög skýrt hjá KSÍ,“ segir Jónas enn fremur.

 Þurfi að skoða vellina sjálfa

Aðspurður hvort að vellirnir sjálfir uppfylli kröfur, segist Jónas ekki vera viss um það. „Það er alls ekki víst að gervigrasvöllurinn uppfyllli kröfur og ég er að vonast til þess að það verði skipt um gervigras á næstunni, ég ber vonir til þess,“ segir Jónas og kallar eftir stuðningi allra Völsunga á endasprettinum í deildarkeppninni.

Kallar eftir stuðningi

„Strákarnir eru að spila hörku leik hérna á heimavelli gegn Þrótti úr Vogum í dag. Það verður leikur sem skiptir  miklu máli og ég vona að fólk mæti á völlinn og styðji við bakið á strákunum í þessu, það skiptir gríðarlegu máli. Stelpurnar eiga líka tvo heimaleiki í röð,“ segir Jónas og bætir við að það sé mikill uppgangur í boltanum. „Það eru sóknarfæri í þessu og með góðum stuðningi áhorfenda er allt mögulegt,“ segir Jónas að lokum.

 

Nýjast