Áramótabrennan að líkindum að Jaðri
Áramótabrenna Akureyringa verður að þessu sinni á Jaðri, en tillaga að leyfi vegna brennunnar hefur verið auglýst á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands.
Leyfið verður gefið út að liðnum fjórum vikum frá því hún var sett inn, nema athugasemdir berist sem gefi tilefni til annars að sögn Leifs Þorkelssonar heilbrigðisfulltrúa á Norðurlandi eystra.
„Við teljum að staður fyrir áramótabrennu að Jaðri uppfylli skilyrði um fjarlægð frá íbúðabyggð og atvinnurekstri,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs sem fer með málið.
Talsverður fjöldi fólk hefur að jafnaði sótt áramótabrennu á liðnum árum, en hún hefur verið við Réttarhvamm. Nýjar reglur um fjarlægð brennu frá íbúðabyggð og atvinnurekstri gera að verkum að færa þarf brennuna nú. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Súlna í tengslum við áramótabrennuna hefur einnig haft sitt aðdráttarafl.
„Við reiknum með að nokkur hundruð manns vilji fylgjast með brennunni, annað hvort á staðnum eða úr hæfilegri fjarlægð,“ segir Andri. Hægt verður að leggja bílum við Jaðar, Ljómatún, austan Kjarnagötu og við Bónus í Naustahverfi. Einnig er ágætis útsýni frá hestamannahverfinu í Breiðholti og úr Naustahverfi.