Annað bréf til Hildu Jönu

Einar Brynjólfsson.
Einar Brynjólfsson.

Sæl Hilda Jana, stjórnarformaður Eyþings/SSNE.

Kærar þakkir fyrir svör þín við spurningum mínum varðandi afturköllun ráðningar í starf hjá Akureyrarstofu. Af þeim má ráða að svona mistök verði ekki endurtekin en jafnframt að líklega verði enginn látinn sæta ábyrgð á þessum mistökum, sem kosta okkur bæjarbúa 3.000.000 kr. eins og komið hefur á daginn.

Þau eru fleiri óveðursskýin sem hrannast upp hér í bæ. Nú hafa þau tíðindi borist að Eyþing/SSNE, sem þú ert í forsvari fyrir, hafi gert dómsátt sem hljóðar upp á 14.800.000 kr. vegna starfsloka fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Skv. hlutfallsreglu mun Akureyrarbær bera þennan kostnað að mestu leyti, eða 9.200.000 kr. Núna er staðan sem sagt sú að 12.200.000 kr. verða greiddar úr sameiginlegum sjóðum okkar, sem borgum skatta og skyldur til sveitarfélagsins, vegna þessara mála. Ég er, líkt og fleiri, mjög ósáttur og leyfi mér því að beina eftirfarandi spurningum til þín:

Hvernig er þessi dómsátt til komin?

Eru fleiri mál í farvatninu hjá Akureyrarbæ eða félögum sem hann á aðild að sem gætu komið okkur jafn „skemmtilega“ á óvart og þessi tvö ofangreindu?

Með fyrirfram þökkum fyrir væntanleg svör,

-Einar Brynjólfsson, útsvarsgreiðandi og fyrrverandi Alþingismaður

Nýjast