Andrésar andar leikarnir settir í dag

Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir af Skíðafélagi Akureyrar í Hlíðarfjalli við Akureyri dagana 19.-22. apríl 2017. Þetta er stærsta skíðamót landsins með um 800 keppendum á aldrinum 5-15 ára. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur, og má því gera ráð fyrir að 2.500-3.000 manns sæki leikana.

Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna. Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra ára skeið en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Nú er 5 ára börnum í annað skiptið boðið að taka þátt í leikunum og mæltist það vel fyrir í fyrra. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér en ekki að sigra. Andrésarleikarnir eru fjölskylduhátíð skíðamanna og því hefur oft verið óskað eftir því að yngri systkini fái að taka þátt í þeim. Með þessu er komið til móts við þá ósk.

Eftir rysjóttan skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli nú með góðu móti þótt snjór sé ekki mikill. Búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum nú sem endranær. Nú þegar hafa um 775 börn frá 18 félögum á Íslandi verið skráð til leiks en einnig er búist við nokkrum gestum frá Noregi.

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri miðvikudagskvöldið 19. apríl að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá íþróttasvæði KA. Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar eru í lok hvers keppnisdags.

Líflegur fréttaflutnignur verður á Facebook síðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir verða birt á www.skidi.is.

Einkunnarorð Andrésar andar leikanna eru; Njótum og skemmtum okkur saman!

 

Nýjast