20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Alltaf ánægjulegt að skila einhverju til baka“
Starfsfólk og heimilisfólk á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík fengu á dögunum árlegan glaðning frá veitingastaðnum Fish & Chips þegar Aðalgeir Sævar Óskarsson, einn eigenda staðarins kom færandi hendi með dýrindis fiskimáltíð.
Fish & Chips er fjölskyldufyrirtæki sem hefur séð heimafólki og ferðamönnum fyrir þessum þjóðarrétti Breta frá opnun staðarins árið 2010. Staðurinn er starfræktur á hafnarsvæðinu á Húsavík og hefur verið opinn á sumrin. Strax eftir fyrstu vertíðina ákváðu þeir bræður Jón og Aðalgeir Sævar Óskarssynir, eigendur staðarins að láta gott af sér leiða.
„Þetta er hugmynd sem Jón bróðir minn fékk á sínum tíma. Við gerðum þetta eftir lokun 2010. Þá vildum við gera eitthvað fyrir fólkið okkar og þetta varð lendingin. Það var svo mikil ánægja með þetta í fyrsta skiptið að við ákváðum að halda þessu áfram og höfum gert þetta á hverju ári við vetrarlokun hjá okkur,“ segir Aðalgeir Sævar.
Vel heppnað sumar
Hann segir að það sé alltaf ánægjulegt að skila einhverju til baka eftir vel heppnað sumar. „Þetta er búið að ganga mjög vel í sumar og sumrin eru farin að teygja sig út október hjá okkur. Við náum að fylgja hvalaskoðunartímabilinu, þegar þau hafa verið að teygja sig inn á haustið, þá er fólk enn að koma til okkar,“ segir Aðalgeir Sævar og bætir við að ferðaþjónustutímabilið sé sífellt að lengjast á svæðinu.
„Það er klárlega að lengjast, Við höfum verið að taka eftir því núna að það er bara fleira fólk að koma til okkar á haustmánuðum og við erum líka að sjá miklu fleira ferðafólk í bænum á haustin heldur en var fyrir örfáum árum síðan. Tímabilið er klárlega að breytast og lengjast. Hvalaskoðunarfyrirtækin segja það sama. Það er bara ótrúlegur fjöldi fólks á ferðinni á haustin. Fólk sem er ekki einu sinni búið að bóka sig heldur á bara leið hjá og kíkir í hvalaskoðun. Verandi neðan við bakkann, njótum við góðs af þessari umferð í auknum mæli. Það sem hjálpar okkur líka eru þessar lokanir hjá öðrum veitingastöðum eftir sumarvertíðina. Þá er þetta ferðafólk að dreifast á færri staði,“ segir Aðalgeir Sævar.