"Góð viðbót við ísflóruna í bænum"

Nóg hefur verið að gera í Valdís ísbúðina frá því hún opnaði í byrjun mánaðarins. Mynd/Facebook-Vald…
Nóg hefur verið að gera í Valdís ísbúðina frá því hún opnaði í byrjun mánaðarins. Mynd/Facebook-Valdís

„Viðtökurnar hafa verið meiri og betri en nokkur þorði að vona,“ segir Guðmundur Ómarsson eigandi ísbúðarinnar Valdís á Akureyri. Ísbúðin opnaði þann 1. ágúst sl. og hafa myndast langar biðraðir fyrir utan búðina. „Það er nánast röð allan daginn, alla daga. Þetta er bara frábært.“

Valdís er staðsett í Turninum í Göngugötunni þar sem Indian Curry Hut var áður til húsa í mörg ár. Guðmundur segir staðsetninguna henta afar vel. „Ég held að það hafi vantað ísbúð á einmitt þessum stað. Þarna fara t.d. ferðamennirnir mikið um sem eru ekki endilega að labba framhjá öðrum ísbúðum.“

Mikil vinna fór í að gera Turninn upp og er búið að gera flotta aðstöðu bæði innandyra og fyrir utan búðina. „Það er mikill sjarmi yfir þessu húsi og húsnæðið er það lítið að það geta ekki mörg fyrirtæki opnað í svo litlu rými. En þetta hentar fullkomlega fyrir ísbúð.“

Valdís er mjólkurís og einnig er töluvert úrval af veganís. Eingöngu er boðið upp á kúluís sem hefur ekki verið mikið um á Akureyri. „Þetta er því nýtt og öðruvísi og góð viðbót við ísflóruna í bænum,“ segir Guðmundur og bætir við að vinsældir Valdís ísbúðarinnar fyrir sunnan hafi ekki farið framhjá Akureyringum.

„Það er greinilegt að Norðlendingar þekkja ísinn og það skýrir að einhverju leyti þær miklar vinsældir hér.“ 

Nýjast