Akureyri - Kærir ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar
Jón Oddgeir Guðmundsson eigandi tveggja fasteigna við annars vegar Glerárgötu 1 og hins vegar Strandgötu 13a hefur kært ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar um breytingar á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar vegna hótelbyggingar sem til stendur að reisa á lóð númer 7 við Glerárgötu. Hann hefur sent kæru þar um til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Að mati Jóns Oddeirs mun breyting á deiliskipulagi raska verulega grenndarhagsmunum hans og sé réttur hans fyrir borð borinn, þannig að fella beri úr gildi ákvörðun bæjarins um hið breytta skipulag.
Hús Jóns Oddgeirs við Glerárgötu 1 á lóðarmörk við Glerárgötu 7, þar sem nú er Sjallinn en til stendur að breyta því húsi í hótelbyggingu og hefur leyfi fengist til að hækka húsið. Telur hann að með breytingu á deiliskipulagi vega að eignarétti sínum, en hann býr í húsinu við Glerárgötu 1 og hefur um árabil rekið verslun með kristilegan varning í húsinu við Strandgötu 13a.
Nefnir Jón Oddgeir nokkur atriði í kæru sinni en eitt þeirra er að hæð byggingarinnar sé í hróplegu ósamræmi við þær byggingar sem standi sunnan við fyrirhugaða hótelbyggingu. Bendir hann einnig á að veruleg breyting verði á ásýnd miðbæjarins með tilkomu háhýsis á þessum stað. Hann bendir einnig á að framkvæmdir geti haft neikvæð áhrif á verð fasteigna á svæðinu. Í kæru kemur einnig fram að lóðir við Glerárgötu 3, 5 og 7 hafi verið sameinaðaar í eina undir tölustafnum 7, en slík sameining hafi ekki átt sér stað samkvæmt fasteignaskrá.