Akureyri hættir stuðningi við flugklasan Air 66N
,,Það er miður að Akureyrarbær ætli að hætta stuðningi sínum við Flugklasann Air 66N. Akureyrarbær ætti að leggja metnað í að byggja ofan á þann árangur sem hefur náðst, ekki síst þar sem enn eru mikil tækifæri til þess að byggja Norðurland upp sem heilsárs áfangastað fyrir millilandaflug" segir í bókun sem Hilda Jana Gísladóttir lagði fram á fundi bæjarráðs í gær en þar var ákveðið að hætta stuðningi við flugklasann.
Eftirfarandi kemur fram í bókun sem fjórir af fimm fulltrúum í bæjarráði samþykktu ,,Bæjarráð ákvað á fundi sínum 27. október 2022 að gera sólarlagssamning við Flugklasann um árin 2022 og 2023. Bæjarráð ítrekar þá bókun sem tekin var á þeim fundi þar sem sagði að Akureyrarbær hefur verið dyggur stuðningsaðili Air 66N verkefnisins frá upphafi. Markmið flugklasans hefur verið að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring. Töluverður árangur hefur náðst í því átaki, en ljóst að áfram þarf að sinna því verkefni. Bæjarráð telur farsælla að stuðningur verði í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands."