20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyri - Eldri borgarar óska eftir frístundastrætó
Stjórn Félags eldri borgara á Akureyri, EBAK og öldungaráð Akureyrarbæjar hafa beint því til bæjaryfirvalda að komið verði á með frístundastrætó milli félagsmiðstöðvanna Birtu sem er við Lindarsíðu og Sölku í Víðilundi.
Frístundaferðir af þessu tagi hafa verið í umræðunni hjá EBAK í nokkur ár. Margir komast ekki inn í venjulega fólksflutningabíla, rútur nema með aðstoð og ekki heldur inn í stærri einkabíla. Margir fara milli félagsmiðstöðvanna í einkabílum en bílastæði eru mjög takmörkuð á báðum stöðum. „Frístundastrætó ætti að fækka þeim ferðum og er í það takt við óskir bæjaryfirvalda um minni umferðarþunga á götunum og hlutfallslega fækkun ökutækja,“ segir í fundargerð öldungaráðs.
„Oft þyrfti að hafa aukastrætisvagna á álagstímum og svo hefur frístundastrætó vegna íþróttaæfinga skólafólks verið í umræðunni um nokkra hríð. Þessar ferðir ættu því að bæta nýtingu þeirra vagna.“