20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyri - Bæjarráð styður við starfssemi Flugklasans Air66N árið 2024
Á fundi bæjarráðs í dag var samþykkt að halda áfram stuðningi við Flugklasan Air66N en áður hafði ráðið samþykkt á fundi sínum þann 5 október s.l. að stuðningur við starfssemina yrði ekki framhaldið frá og með næstu áramótum.
Í samþykkt bæjarráðs segir:
,,Bæjarráð samþykkir að styðja við starfsemi Flugklasans Air66N árið 2024 um 9 milljónir króna. Árið verði nýtt til þess að skoða með hvaða hætti stuðningur bæjarins geti orðið við verkefnið í framhaldinu enda ákaflega mikilvægt að tryggja reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll til framtíðar. Bæjarráð hvetur Markaðsstofu Norðurlands til þess að leita eftir styrkjum hjá fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum á Norðurlandi inn í flugklasann."
Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar fagnar þessari niðurstöðu
,,Ég fagna því að sjálfsögðu að félagar mínir í bæjarráði hafi séð að sér og dregið fyrri ákvörðun sína um að hætta við stuðningi við Flugklasann til baka. Það skiptir gríðarlega miklu máli að tryggja reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll til framtíðar, ekki síst til að jafna árstíðasveiflur í ferðaþjónustu hér á Norðurlandi. Við erum á réttri leið en verkefninu er sannarlega ekki lokið."