13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Akureyrarbær bregst við ábendingum um eldvarnir á Hlíð
Akureyrarbæ hefur borist erindi frá Slökkviliði Akureyrar dags. 4.2.2022 þar sem fram kemur að eldvörnum í húseigninni að Austurbyggð 17 sé verulega ábótavant. Sveitarfélagið mun leggja fram verkáætlun um úrbætur og bregðast við af ábyrgð og festu. Ráðast þarf í úrbætur hið fyrsta og fá skriflega staðfestingu heilbrigðisráðuneytisins um kostnaðarþátttöku ríkisins. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Húsnæðið að Austurbyggð 17 er að mestu skráð í eigu Akureyrarbæjar en þar rekur Heilsuvernd ehf. hjúkrunarheimili í umboði Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytisins. Hefðbundin kostnaðarskipting við meiriháttar viðhald og endurbætur húsnæðis af þessu tagi er sú að sveitarfélag standi straum af 15% kostnaðar en ríkið 85%. Samkvæmt samkomulagi Heilsuverndar ehf. við Sjúkratryggingar Íslands greiðir fyrirtækið ekki leigu af húsnæðinu en fær greitt svokallað húsnæðisgjald til að standa undir rekstri húsnæðisins og almennu viðhaldi. Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið hafa þannig ráðstafað húseignum Akureyrarbæjar til þriðja aðila án þess að á móti komi leigugreiðslur til sveitarfélagsins.
Sjá einnig: HÓTA AÐ LOKA HLÍÐ Á AKUREYRI
Bæjarráð fjallaði um málið á fundi sínum í morgun og samþykkti eftirfarandi bókun:
Bæjarráð lítur ábendingar í eldvarnaskoðun slökkviliðsins alvarlegum augum og áréttar að við þeim verður brugðist án tafar. Um leið er gerð sú skilyrðislausa krafa að ríkið og/eða Heilsuvernd ehf. greiði kostnaðinn við þau verk sem þarf að vinna. Ótækt er að Akureyrarbær beri einn kostnað af óhjákvæmilegu viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum á húseignum sem ríkið hefur afhent þriðja aðila til ráðstöfunar endurgjaldslaust án samráðs við Akureyrarbæ sem er skráður eigandi húsnæðisins. Er bæjarstjóra jafnframt falið að kanna lagalega stöðu Akureyrarbæjar varðandi eignarhald á húsinu.