Áhöfn Kaldbaks EA 1 hélt litlu jólin í gær. „Kokkurinn fór gjörsamlega á kostum“

Diskarnir voru glæsilegir hjá Jóni Ragnari Kristjánssyni     Myndir samherji.is
Diskarnir voru glæsilegir hjá Jóni Ragnari Kristjánssyni Myndir samherji.is

Áhafnir fiskiskipa Samherja hafa undanfarna daga haldið í þann góða sið að halda upp á litlu jólin, þar sem borð svigna undan kræsingum. Slíkar veislur kalla eðlilega á góðan undirbúning kokkanna, sem undirbúa innkaup aðfanga vel og vandlega áður en veiðiferðin hefst.

Sérstakur hátíðarmatseðill var útbúinn, rétt eins og á góðum veitingahúsum.

Sælir og saddir

„Við fórum út síðasta föstudag og erum á Reykjafjarðarðarálnum í blíðskaparveðri,“ segir Oddur Jóhann Brynjólfsson skipstjóri.

„Jón Ragnar Kristjánsson kokkur, er mikill snillingur í matseld og hann náði sannarlega að gera kvöldstundina hátíðlega. Við erum þrettán í áhöfn og borðsalurinn var tvísetinn enda ekki gert hlé á veiðum. Venjulega tekur borðhald ekki mjög langan tíma en í gærkvöldi nutum við kræsinganna og leyfðum okkur njóta samverunnar. Svona hátíðarstund brýtur upp daginn og allir voru sælir og glaðir, enda allir réttirnir hjá Jóni Ragnari frábærir og fóru vel í maga. Hann fór gjörsamlega á kostum, við erum allir sammála um það. Áhafnir annarra skipa Samherja halda sömuleiðis sín litlu jól, sem er frábær og góður siður,“ segir Oddur Jóhann Brynjólfsson skipstjóri.

Frá þessu segir á heimasíðu Samherja

 

Nýjast