6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2023
Á síðasta fundi stjórnar SSNE var ákveðið að gera 18 verkefni að áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra árið 2023. Um er að ræða mjög fjölbreytt verkefni sem öll eiga það sameiginlegt að styðja við Sóknaráætlun Norðurlands eystra og mun færa okkur nær þeim markmiðum sem þar koma fram. greint er frá þessu á vef SSNE.
Heildar styrkur til verkefnanna er 72.8 milljónir sem skiptast eftirfarandi:
Ungmennaþing SSNE, markmiðið verkefnisins er að valdefla ungt fólk í landshlutanum, auka tenginu, skapa samheldni, efla tengslanet og samvinnu ungmenna í landshlutanum. Styrkur að upphæð 1.600.000 kr.
Firðringur, hæfileikakeppni unglinga á Norðurlandi. Markmið verkefnisins er að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Styrkur að upphæð 5.000.000 kr.
Upptaktur, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna. Markmið verkefnisins er að stuðla að tónsköpun ungs fólks og hvetja þau til frumsköpunar. Styrkur að upphæð 850.000 kr.
Samfélagsleg áhrif af millilandaflugi á Norðurlandi eystra. Markmið verkefnisins er að meta áhrif af millilandaflugi Niceair frá Akureyri á einstaklinga, fyrirtæki og samfélög á Norður- og Austurlandi. Styrkur að upphæð 1.200.000 kr.
Gull úr Grasi. Meginmarkmið verkefnisins er að auka fæðuöryggi Íslands og sjálfbærni innlendrar matvælaframleiðslu með uppsetningu graskögglaverksmiðju við Hveravelli í Reykjahverfi. Styrkur að upphæð 5.000.000 kr.
Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra. Markmiðið er að til verði heildstæð samgöngu- og innviðastefna fyrir Norðurland eystra, þar sem gert er grein fyrir helstu áætlunum og forgangsröðun verkefna. Styrkur að fjárhæð 2.000.000 kr.
Uppspretta. Meginmarkmið verkefnisins er að styðja við sveitarfélög svæðisins í umhverfis- og loftslagsmálum og koma tillögum að aðgerðum úr spretthópavinnu í framkvæmd. Styrkur að fjárhæð 15.000.000 kr.
Veltek, nýsköpun í velferðarþjónustu. Aðalmarkmið með verkefninu er að efla nýsköpun á svæðinu og deila nýsköpunarþekkingu á milli svæða, stofnana og sveitarfélaga. Undirmarkmið er að efla norrænt nýsköpunarsamstaf um velferðartækni og draga norrænt fjármagn inn á svæðið. Styrkur að fjárhæð 5.000.000 kr.
Loftum, fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum meðal starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE. Styrkur að fjárhæð 3.075.500 kr.
Svæðisskipulag Norðurlands eystra, undirbúningsvinna. Markmið verkefnisins er að greina umfang og kostnað við gerð svæðisskipulags á Norðurlandi eystra, einnig kanna áhuga sveitarfélaga að ráðast í slíkt verkefni. Styrkur að fjárhæð 4.000.000 kr.
Félagsmiðstöð í skýjunum. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun barna og koma til móts við þarfir þeirra og áhugamál þvert á sveitarfélög á landinu öllu. Styrkur að fjárhæð 4.000.000 kr.
Útrýming malarvega á Norðurlandi eystra. Markmið verkefnisins er að greina og kostnaðarmeta framkvæmdir við að malbika malarvegi á Norðurlandi eystra. Ræða við stjórnvöld og leita fjármagns framkvæmdanna. Styrkur að fjárhæð 2.500.000 kr.
Efling íslensku sem annars máls fyrir fullorðna á starfsvæði SSNE. Markmið verkefnisins er að mynda samráðsvettvang þeirra opinberu aðila sem koma að kennslu íslensku sem annars máls fyrir ungmenni og fullorðna (16 ára og eldri) á starfssvæði SSNE. Styrkur að fjárhæð 965.000 kr.
Auka fjárfestingar á Norðurlandi eystra. Markmið verkefnisins er að laða að fjárfestingar í landshlutann og þar með fjölga atvinnuskapandi verkefnum í sem flestum sveitarfélögum. Styrkur að fjárhæð 6.500.000 kr.
Sýnileiki Norðurlands eystra. Markmið verkefnisins er að auka sýnileika Norðurlands eystra sem og verkefna og fyrirtækja á svæðinu. Með auknum sýnileika er hægt að vekja athygli á svæðinu sem hentugum kost til fjárfestinga sem og búsetu ásamt því að treysta ímynd svæðisins. Styrkur að fjárhæð 5.615.000 kr.
Sjálfbær ferðaþjónusta. Markmið verkefnisins er að auka sjálfbærni í ferðaþjónustu á Norðurlandi og koma henni betur á framfæri. Styrkur að fjárhæð 1.500.000 kr.
Líforkurver í Eyjafirði. Markmið verkefnisins er að gera kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir líforkuver á Dysnesi í Hörgársveit. Styrkur að fjárhæð 7.500.000 kr.
Fjölmenningarráð SSNE. Markmið verkefnisins er að efla starf fjölmenningarráðs SSNE og koma verkefnum í framkvæmd sem styðja við fjölmenningu á starfsvæði SSNE. Styrkur að fjárhæð 1.500.000 kr.