Áframhaldandi stuðningur við markaðssetningu flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur undirritað saming við Íslandsstofu um áframhaldandi stuðning við markaðssetningu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Verkefninu Nature Direct er ætlað að hvetja til samstarfs og samvinnu Íslandsstofu, Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar um kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug á svæðinu.Samningurinn er til tveggja ára og nemur árlegt framlag til hans 15 milljónum króna. Með samningum fá Isavia innanlandsflugvellir og Íslandsstofa það hlutverk að kynna flugvellina sem og Flugþróunarsjóð, en sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.
Fjölmörg tækifæri
„Eitt af forgangsmálum mínum sem ferðamálaráðherra er að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið utan háannatíma. Það bætir rekstrarskilyrði í greininni með auknum fyrirsjáanleika og betri nýtingu innviða á ársgrundvelli. Skilvirkasta leiðin til þess er að ýta undir beint millilandaflug til alþjóðaflugvallanna á landsbyggðinni. Flug EasyJet frá London til Akureyrar er stór áfangi og að baki honum liggur þrotlaus vinna. Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á landsbyggðinni allan ársins hring sem mikil verðmæti eru fólgin í að nýta,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningu.
Þá ákvað menningar- og viðskiptaráðherra jafnframt að veita Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú 20 milljón króna framlag hvorri til þess að kynna áfangastaðina, innviði og þjónustu í boði, vöruframboð og undirbúa komu væntanlegra ferðamanna með beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaðaflugvallar.
Víðtæk áhrif á ferðaþjónustu og samfélagið allt
„Beint flug til Akureyrar hefur haft mjög víðtæk áhrif á ferðaþjónustu og samfélagið allt á Norðurlandi á undanförnum árum, og við sjáum nú þegar áhrifin sem easyJet hefur haft í vetur. Framundan eru stærstu vikurnar í vetrarferðaþjónustu og þar verða Bretar enn meira áberandi en verið hefur, þar sem sala á flugferðum hefur verið framar vonum. Áframhaldandi flug easyJet næsta vetur byggir svo enn frekar undir ímynd Akureyrar og Norðurlands sem áfangastaðar. Ferðaþjónustufyrirtæki vinna langt fram í tímann og tilkynningin um flug næsta vetur hefur gefið norðlenskri ferðaþjónustu byr undir báða vængi í samtölum við breskar ferðaskrifstofur,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Fulltrúar MN hitta fólk sem vinnur á ferðaskrifstofum í íslenska sendiráðinu í London í dag, fimmtudag og til að sýna þeim hvað hægt að upplifa norðan heiða og hvers vegna það er svo góður kostur að fljúga beint til Akureyrar að vetrarlagi, að hennar sögn.