Afmælishóf Grenilundar
Í fyrradag var haldið upp á 25 afmæli Grenilundar, en heimilið var vígt 3. október 1998. Af því tilefni kom Óskar Pétursson og söng við undirleik Eyþórs Inga Jónssonar fyrir heimilisfólk og gesti sem fjölmenntu í boðið. Á eftir var boðið í kaffi og afmælistertu. Undirtektir voru afar góðar við tónlistinni og samkoman hin ánægjulegasta í alla staði.
Grenilundur hefur jafnan verið eftirsótt heimili eldri borgara þar sem starfið einkennist af virðingu og heimilislegum anda. Það góða starf er afar mikilvægur hluti af þeirri þjónustu sem íbúum Grýtubakkahrepps stendur til boða. Fjóla V. Stefánsdóttir forstöðumaður nefndi í máli sínu draum sinn um frekari þjónustu við íbúa, m.a. með byggingu minni íbúða fyrir eldri borgara í nágrenni heimilisins. Með Grenilundi rættist að vissu leyti draumur um þjónustu í sveitarfélaginu frá vöggu til grafar og vonandi rætast fleiri draumar á komandi árum.
Frá þessu var fyrst sagt á grenivik.is