Aflið fær stuðning frá Coca-Cola á Íslandi

Frá vinstri: Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi, …
Frá vinstri: Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi, Eggert Sigmundsson, forstöðumaður Víking brugghús, Erla Hrönn Unnsteinsdóttir, framkvæmastýra hjá Aflinu og Anna Regína Björndsóttir, forstjóri Coca-Cola á Íslandi.

Starfsfólk á vörustjórnunarsviði á Akureyri velur verðugt málefni

Nýverið barst Aflinu á Akureyri styrkur frá Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi (Coca-Cola á Íslandi) til að styðja við og efla það mikilvæga starf sem þar fer fram.

Á hverju ári styrkir fyrirtækið málefni í nærumhverfinu sem valið er af starfsfólki á vörustjórnunarsviði á Akureyri. Coca-Cola á Íslandi rekur stóran vinnustað á Akureyri, Víking brugghús, þar sem um 25 starfsmenn vinna. „Í ár var valið að styðja við Aflið, sem eru samtök sem þjóna Akureyri og nærumhverfi og byggir á þolenda- og áfallamiðaðri þjónustu til þolenda ofbeldis. Það er von okkar að stuðningurinn geti létt örlítið á rekstrinum hjá Aflinu og gert þeim kleift að veita þá þjónustu sem samtökin standa fyrir gagnvart þolendum á svæðinu,“ segir Eggert Sigmundsson, forstöðumaður Víkings brugghúss, en í fyrra fór stuðningur til Pieta samtakanna og árið þar á undan til Kvennaathvarfsins á Akureyri.

Aflið veitir ráðgjöf undir handleiðslu sérfræðings þar sem unnið er eftir hugmyndafræði um hjálp til sjálfshjálpar. Einstaklingar geta valið um að koma í húsnæði Aflsins á Akureyri, Blönduósi, Húsavík, Egilsstöðum eða Reyðarfirði til þess að fá ráðgjöf en einnig er hægt að bóka fjar- og símaviðtöl.

Nýjast