Af geðræktarhundinum Leó
Facebooksíða SAk segir frá því að geðræktarhundurinn Leó hafi hlotið tilnefningu ásamt öðrum hundum sem afreks- og þjónustuhundur ársins 2023.
Orðrétt segir ,,Hundar hafa verið hluti af meðferð á geðdeild SAk frá árinu 2017. Í dag er það hann Leó Þórsson Anítuson (Stekkjardals Ivan Pavlov) sem sinnir meðferðinni. Hans helstu bækistöðvar eru í Seli í dagþjónustunni. Leó er tíu ára gamall labrador og kom hann til okkar árið 2018. Faðir hans sinnti svipaðri meðferð á Kleppi.
Hann var kallaður Kóngurinn á Kleppi og hlaut viðurkenningu hjá HRFÍ fyrir sín störf þar. Helstu kostir Leós eru þættir eins og einlægur áhugi á mat og á högum annarra, sjálfsþekking og vitund, framtíðarsýn og hugsjón og ber hann ábyrgð á sínum verkefnum.
Leó er viljugur til að þjóna og sýnir auðmýkt í starfi og kemur fram við aðra á jafningjagrundvelli. Hans helstu verkefni innan deildarinnar eru að hlúa að fólki og leggur hann sitt af mörkum þegar kemur að geðrækt."