„Ætlaði bara að vera í eina önn á Íslandi“
Nele Marie Beitelstein kemur frá Þýskalandi en hún kom upphaflega til Íslands sem skiptinemi við Háskólann á Akureyri árið 2015 og ætlaði sér aldrei að stoppa lengur en í eina önn.
Áhugi hennar á landi og þjóð rak hana þó áfram og hún hóf að starfa í ferðaþjónustu á Húsavík og nú öllum þessum árum síðar hefur hún fasta búsetu á Húsavík ásamt íslenskum eiginmanni sínum og syni þeirra.
„Ég ætlaði bara að koma í eina önn sem skiptinemi en ég er hérna enn þá og starfa sem menningar og fjölmenningarfulltrúi Norðurþings,“ segir Nele og hlær.
Nele er með bakkalárspróf í listasögu, tónvísindum og fjölmiðlafræði. Master í hagnýtri menningar- og fjölmiðlafræði frá háskólanum í Merseburg í Þýskalandi og segir að starfið henti hennar menntun og bakgrunni mjög vel.
„Ég kom inn í þetta starf fyrir forvera minn þegar hún fór í fæðingarorlof og var svo ráðin í fast starf þegar hún ákvað að snúa ekki aftur. Ég er í 75% starfi hjá sveitarfélaginu og það skiptist á milli menningar og fjölmenningarmála, þessu starfi fylgja mörg afar spennandi verkefni,“ segir Nele.
Hún segir hlutverk sitt sem fjölmenningarfulltrúa snúast fyrst og fremst um að miðla upplýsingum frá sveitarfélaginu til íbúa með erlent ríkisfang. „Fólk sem kemur til landsins og hefur ekki náð tökum á tungumálinu veit í flestum tilfellum ekki hvaða þjónustu og afþreyingu er hægt að fá hjá sveitarfélaginu eða hvert á að leita til að fá slíkar upplýsingar, t.d. með leikskólamál,“ útskýrir Nele og bætir við að hún sé ekki síður milliliður fyrir útlendinga til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til sveitarfélagsins. „Ég lít á það sem mitt starf að byggja brýr á milli ólíkra menningarheima á sama tíma og slíkar tengingar verða sífellt mikilvægari,“ segir hún enda sé hlutfall íbúa í Norðurþingi með erlent ríkisfang sífellt að hækka.
Jafnframt segir Nele að margar áskoranir fylgi stafi sínu og kannski sú stærsta þeirra sé að ná til fólks sem þurfi á þjónustu hennar að halda. Að fólk einfaldlega viti að hún sé til staðar. Hún segir starfið jafnframt vera afar gefandi og gangi vel að brúa þessi bil.
Stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum.
Stór hluti af starfi menningar og fjölmenningarfulltrúa snýst um að skipuleggja ýmsa viðburði og koma að mótun dagskrár fyrir innfædda og aðflutta.
Liður í þeirri vinnu er svo kallað menningarspjall sem farið hefur verið af stað með. Það snýst um að stefna saman ólíku fólki sem hefur það sameiginlegt að hafa áhuga á menningarmálum í sveitarfélaginu.
„Við erum að hittast á þriðja fimmtudegi hvers mánaðar í hádegisspjall, borða saman og ræða hugmyndir og efla tengsl. Þetta er fyrri alla sem hafa áhuga á menningarstarfsemi í Norðurþingi og nágrenni. Við ræðum bara alls konar,“ segir Nele en einn slíkur hádegisfundur fór fram á sl. fimmtudag á veitingastaðnum Naustinu. „Þar vorum við til dæmis að ræða dagskrá fyrir 17. júní, við ræddum um Menningarmiðstöð Þingeyinga og hvað væri hægt að gera meira þar. Svo ert þetta góður vettvangur til að ræða styrkja mál og fá aðstoð við slíkt,“ segir Nele.
Sjálfseflingarnámskeið fyrir konur af erlendum uppruna
Á dögunum var Nele á áhugaverðu námskeiði í Íþróttahöllinni á Húsavík ásamt 10 konum frá ólíkum þjóðernum á vegum samtakanna Slagtog. Námskeiðið segir Nele að hafi verið undir yfirskini sjálfsvarnar en hafi fyrst og fremst snúist um að valdefla konur.
Slagtog eru félagasamtök um femíníska sjálfsvörn (FSV) en hún skiptist í fjóra þætti: tilfinningalega, sálræna, munnlega og líkamlega.
„Þau hafa áður verið með slík námskeið og vinnustofur fyrir konur almennt en að þessu sinni er áherslan lögð á konur með erlendan bakgrunn. Þarna er bæði að kenna konum einföld brögð til að verja sig fyrir líkamlegum árásum en þetta snerist ekki síður um valdeflingu almennt, enda eru konur af erlendum uppruna oft í viðkvæmari stöðu en innfæddar. Þetta snerist um að efla sjálfstraust þessara kvenna,“ segir Nele og bætir við að vel hafi verið mætt á námskeiðið.
Þá segir Nele að í aðdraganda námskeiðsins hafi konurnar komið saman á föstudagskvöld þar sem þær fengu smá kynningu frá samtökum erlendra kvenna á Íslandi, „W.O.M.E.N.“ en þau hafa verið í nánu samstarfi við Slagtog.
Markmið samtakanna er að sameina, koma á framfæri og fjalla um hagsmuni og málefni kvenna af erlendum uppruna sem búa á Íslandi til að koma á jafnrétti fyrir þær sem konur og sem útlendinga á öllum sviðum samfélagsins. Samtökin hafa sérstaklega lagt áherslu á atvinnu- og félagsmál, menntun og kynbundið ofbeldi.
Langar þig að hitta fólk alls staðar að úr heiminum sem býr í Norðurþingi?
Langar þig til að kynnast fólki sem hefur svipað hugarfar og þú, finna félaga eða bara eyða tíma?
Fjölmenningarfundir
Eitt af því sem Nele segir að sé gert til að brúa bilið á milli ólíkra menningarheima séu svo kallaðir fjölmenningarfundir, sem haldnir eru reglulega. Þeir séu opnir heimamönnum og fólki með erlendan bakgrunn.
Fjölmenningarfundurinn er að frumkvæði Fjölmenningarfulltrúa Norðurþings. Hugmyndin er að koma á fót mánaðarlegum fundi fólks í óformlegu, þægilegu umhverfi til að skiptast á hugmyndum milli menningarheima. Markmiðið er að veita fólki rými þar sem það getur hist, spjallað og skipst á upplýsingum um ólíka menningu.
Hittu nýtt fólk, fagnaðu mismunandi menningu okkar og nálgun í afslöppuðu, vinalegu rými.
Þessir fundir fóru áður fram á Safnahúsinu en hafa nú verið fluttir í ráðstefnusal Hvalasafnsins. Næsti fjölmenningarfundur er 15. júní nk. klukkan 16.
Sæskrímsli á kæjanum á Húsavík
Meðal viðburða sem framundan eru nefnir Nele áhugaverða sýningu sem heitir einfaldlega Sæskrímslahátíðin en hún er haldin í tengslum við Listahátíð í Reykjavík en jafnframt á faraldsfæti um landið og kemur til Húsavíkur 12. júní.
„Það verða eflaust mikið um dýrðir á hafnarsvæðinu í tengslum við sæskrímslin. Þetta er einhvers konar blanda af leiklistar og sirkusviðburði. Mikið af stórum kynjaverum úr hafinu og mér skilst að skrímslin sé frekar hræðileg og geti vel valdið ótta hjá einhverjum,“ segir Nele.
Það er sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props sem standa að sýningunni sem er lýst sem íslensku götuleikhúsverki fyrir alla fjölskylduna.
„Hvað er að gerast á hafnarbakkanum? Fréttir hafa borist af því að togari á veiðum rétt fyrir utan landgrunnið hafði fengið risavaxna og áður óþekkta lífveru í trollið. Skömmu síðar varð hann vélarvana og sendi út neyðarkall. Togarinn hefur nú verið dreginn í höfn. Á meðan beðið er eftir viðbrögðum vísindamanna við þessu furðufyrirbæri gefst almenningi einstakt tækifæri til þess að berja ferlíkið augum. Eru sæskrímsli úr þjóðsögum okkar komin fram í dagsljósið og hvaða skilaboð færa þau okkur?,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.
80 ára lýðveldisafmæli
Þá segir Nele að undirbúningur fyrir hátíðarhöldin vegna 17. júní sé í fullum gangi.Nele segir að þó að hér sé verið að fagna sjálfstæði Íslendinga þá séu hátíðarhöld af þessu tagi kjörið tækifæri til að færa saman innfædda erlenda Íslendinga. „Þarna gefst kjörið tækifæri fyrir útlendinga til að gleðjast með heimafólki og læra í leiðinni um íslenskar hefðir og menningu,“ segir Nele að lokum.