Aðgerða er þörf og það sem fyrst
„Í mínum huga liggur það í augum uppi að aðgerða er þörf og það sem allra fyrst. Við bindum miklar vonir við að hópur ráðuneytisstjóra sem vinnur að málinu skili raunhæfum tillögum á næstu vikum,“ segir Ingibjörg Isaksen alþingimaður en hún og samfélagi hennar í Framsóknarflokki í Norðausturkjördæmi, Þórarinn Pétursson héldu fund með bændum á Hrafnagili í fyrrakvöld. Sú alvarlega staða sem bændur standa frammi fyrir endurspeglaðist í mjög góðri aðsókn, en vel var mætt til fundar.
„Bændur eru orðnir þreyttir á plástrum og þeir vilja kerfi sem virkar, kerfi sem byggir undir að þeir geti stundað sjálfbæran rekstur en að ekki verði nú líka og oft áður lagt til að greiddir verði út styrkir í eitt skipið enn,“ segir Ingibjörg.
Bráðaaðgerðir fyrst
Á fundinum var lögð áhersla á að vinna þurfi að bráðaaðgerðum sem þurfi að koma til sem fyrst svo hægt sé að bregðast við stöðu þeirra sem verst eru staddir. Aðrar aðgerðir kæmu í framhaldinu. Lánakjör er eitt þeirra atriði sem rætt var, þ.e. að bændur geti endurfjármagnað lán sín til lengri tíma og á lágum vöxtum og er horft til Byggðarstofnunar í þeim efnum. Þá bar hlutdeildarlán á góma, að aukið fjármagn væri sett inn í slík lán til auðvelda ungu fólki að takast á við búreksturinn.
Tollavernd er að sögn Ingibjargar mikilvægt innlendri matvælaframleiðslu. „Samkeppni við innflutning þarf að vera á réttum og sanngjörnum forsendum. Það verður að gera sömu kröfur til innfluttra matvæla líkt og við gerum hér með tilliti til sýklalyfjanotkunar, aðbúnaðar dýra og fleiri atriða,“ segir Ingibjörg.
Eitt af því sem einnig var nefnt á fundinum var rafmagnsverð og að raforkuverð væri mun hærra í dreifbýli en þéttbýli. Þó stjórnvöld hafi niðurgreitt dreifikostnað hafi skapast bil þar á milli sem ekki næst að brúa. „Það er mikilvægt að skoða þetta enn frekar svo jafnt gangi yfir þá sem búa á dreifbýlum og köldum svæðum,“ segir hún og nefnir einnig mikilvægi þess að koma upp 3ja fasa rafmagni um allt land.
Staðan aldrei þyngri en nú
„Staða bænda hefur oft verið þung og þeir gengið í gegnum sveiflur í sínum rekstri, en ég held hún hafi aldrei verið þyngri en einmitt nú. Það er svo komið að bú sem áratugum saman hafa verið í góðri stöðu standa frammi fyrir mjög erfiðri stöðu og sum komin að þeim mörkum að vera vart rekstrarhæf. Þar setja gríðarmiklar hækkanir á öllum aðföngum strik sitt í reikninginn og einnig hækkandi vextir hér á landi sem gera að verkum að margir ráða ekki lengur við afborganir,“ segir Ingibjörg. „Þeir atburðir sem orðið hafa í heiminum undanfarin misseri sýna okkur hversu mikilvægt fæðuöryggi er fyrir okkur sem þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi. Það er mikið í húfi að við komust úr því öngstræti sem við erum í. Matvælaframleiðsla hér á landi er öryggismál og hún er líka byggðamál.“