Að verða gamall og komast upp með það

Egill P. Egilsson skrifar

ÉG

Þegar ég var unglingur fannst mér fátt asnalegra en miðaldra fólk, enda alin upp af miðöldruðustu foreldrum sem sögur fara af.

Ég man að ég strengdi þess heit á þessum tíma að miðaldra hallærið skildi aldrei koma fyrir mig. Alla tíð síðan hefur mér þótt vel takast til enda með eindæmum svalur þótt aldurinn bendi til miðöldrunar, eða svo hélt ég.

Í haust byrjaði ég að kenna í Borgarhólsskóla á Húsavík og er mest með unglingum. Eins og við vitum, þá finnst unglingum fátt hallærislegra en miðöldun. Þetta gæti þó ómögulega átt við um mig, enda hlusta ég enn á pönk og les Stephen King.

Þarna lenti ég hin vegar á ákveðnum  vegg og verð steinhissa í hvert sinn sem ég spyr krakkanna hvort þau muni eftir einhverju sem mér þykir alveg ótrúlega merkilegt. Eitthvað sem vitanlega gerðist löngu áður en þau fæddust.

Það skal tekið fram að ég hef ekkert gert skemmtilegra á ævinni en að kenna unglingum. Engu að síður hafa krakkarnir ekki farið leynt með það að ég sé miðaldra og eftir forskriftinni ákaflega hallærislegur. Ég hef líka komist að því að ég er alveg þræl sköllóttur, ég sem hélt að ég væri bara með smávægileg kollvik. En veruleikinn er harður húsbóndi.

Ég sem alltaf hef verið að bíða eftir því að verða fullorðinn horfði þarna framan í nýtt og krefjandi hlutskipti. Það er eitt að vera miðaldra en þarna hefði ég hæglega geta orðið  viðkvæmur og vandræðalegur miðaldra karlmaður. En ég valdi aðra leið, ég hef tekið miðöldrun minni og fagnað henni og hyggst nú gera hana að mínum ríkjandi persónuleika. Það er jú fátt fyndnara en hin hallærislega miðöldrun íslenskra karlmanna; jú kannski elli brjálæðið, sem ég hlakka óstjórnlega mikið til.

Það er nefnilega svo fyndið að gamalt fólk, og þá á ég við mjög gamalt. Það kemst upp með svo margt skemmtilegt.

Ég man til dæmis eftir því frá unglingsárunum, þá vann einn af vinum mínum í KÞ Matbæ á Húsavík, matvöruverslun bæjarins. Vinur minn sagði mér frá því að það skemmtilegasta sem hann lenti reglulega í í vinnunni væri þegar öldruð kona koma inn í búðina. Hún kom mjög reglulega og var mjög öldruð. Svo öldruð var hún að eflaust hafði hún vanist á gömlu nýlenduverslanirnar, þar sem vörur voru allar afgreiddar yfir afgreiðsluborð.

Það var ekki að spyrja að þeirri gömlu. Hún kom í búðina, stillti sér ábúðarfull upp úti á miðju gólfi og hóf að hrópa hástöfum innkaupalistann sinn. Svo stóð hún bara á miðju gólfinu á meðan vinur minn hljóp út um alla búð og fyllti á körfuna henna. Vinur minn var alltaf sérstaklega glaður eftir slíka vinnudaga.

Þetta er mín helsta tilhlökkun í mínu miðaldra lífi; að verða eldgamall og standa úti á miðju gólfi í Nettó, öskra innkaupalistann minn á erlendu tungumáli og komast upp með það.

Egill P. Egilsson

 

Nýjast