Að kafna úr frekju.

Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Eitt sinn gekk ég fram á leiði ókunnugs manns. Á steininum hans stóð „menn eiga að hafa vit á því að vera í góðu skapi.” Mér fannst þetta svo gott að ég lagði það á minnið og rifja það gjarnan upp með sjálfri mér þegar ég er ljót í hugsun, sjálfhverf og leiðinleg. Það gerist því miður of oft. Ef auðmýkt er fyrir hendi er hægt að rækta með sér gleði og háttprýði og verða skárri manneskja í dag en í gær. Það er ef til vill ágætis áskorun til okkar allra nú um stundir.

 Á þessu landi eru áberandi margir sjálfhverfir, þrasgjarnir, fullir af heift og dónalegir. Öfgafull samskipti fólks bera þess óræk merki. Einkennilega margt harðfullorðið fólk vílar ekki fyrir sér að níða niður æðstu stofnanir og embættismenn þjóðarinnar, lögregluna, vísindamenn og jafnvel björgunarsveitir. Svo ekki sé talað um þegar veist er að líkamlegum einkennum fólks. Allt þetta stuðlar að sundrung og hatri. Fólk er ýmist rautt af bræði eða ætlar að vera ofboðslega fyndið, blindað af sjálfhverfu.

Ungmennin okkar læra svo það sem fyrir þeim er haft. Börn eru alltaf góð og hreinar sálir og unglingar gáfaðir og gott fólk sem er að þroskast og breytast í falleg fiðrildi. Þau eru eins og svampur og drekka í sig það sem þau sjá, heyra og upplifa og verða síðan spegilmyndir þess umhverfis sem þau alast upp í. Það er hegðun okkar fullorðna fólksins sem skapar fyrirmyndina. Niðrandi orð, óvirðing, yfirgangur og reiði. Svo erum við hissa, belgjum okkur út og leitum að sökudólgum sem oftast er að finna undir okkar eigin kodda.

Við getum gert milljón greiningar og mokað lyfjum í börnin. Stofnað stýrihópa, rýnihópa, faghópa, byggt meðferðarheimili og fangelsi og ausið fé í dæmið. Útkoman verður samt sú sama, ef við hvert og eitt okkar tökum okkur ekki alvarlega á í hegðun. Enginn er það góður að hann geti ekki orðið betri. Við þurfum að skipta um mold í okkar eigin potti, þá mun fíflunum í kringum okkur fækka. Blásnauðir forfeður okkar sem sköpuðu handa okkur eitt ríkasta samfélag veraldar sem og erfingjar framtíðarinnar, sjálf börnin, eiga skilið að við högum okkur betur.

Látum ekki grafskrift okkar verða „kynslóðin sem átti allt en kafnaði úr frekju.“

Nýjast