20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Að forðast samtalið
Ragnar Sverrisson skrifar
Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Bæjarstjórn Akureyrar lét sig hafa það í vor að samþykkja einhliða og án samráðs við bæjarbúa afdrifaríkar breytingar á skipulagi miðbæjarins frá árinu 2014. Í framhaldinu vonuðu margir í bænum að Skipulagsstofnun gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin sem þar voru viðhöfð. Þær væntingar byggðust á því að löggjafinn tók skýrt fram í skipulagslögum á sínum tíma að stofnuninni væri falið að “tryggja (að) samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana,” eins og segir í 1. grein. Þetta er síðan margendurtekið í lögunum og því algjörlega skýrt að stofnuninni ber að kanna hvort slíkt samráð hafi farið fram í raun, hvort heldur um er að ræða allsherjar breytingar á deiliskipulagi (eða aðalskipulagi) eða á einstökum greinum þess sem í gildi er hverju sinni. Þegar nú liggur fyrir að Skipulagsstofnun samþykkti umræddar breytingar án þess að gera nokkrar efnislegar athugasemdir við þær eða hin dæmalausu vinnubrögð bæjarstjórnar við gerð þeirra er augljóst að stofnunin hefur brugðist eftirlitshlutverki sínu að tryggja að samráð sé ávallt haft við almenning. Svo er að sjá að stofnun láti sig litlu varða þá staðreynd að bæjarstjórnin gerði ekki minnstu tilraun til að útskýra fyrir bæjarbúum hvað liggi að baki afdrifaríkum breytingum frá skipulaginu 2014. Virðist vera slétt sama.
Kæra eigin bæjarfulltrúa
Það er eins og löggjafinn hafi reiknað með að slík óyndisstaða gæti komið upp og því ástæða til að tryggja enn frekar að eðlilegt samráð sé ávallt haft við almenning í málum eins og þessu. Alþingi setti því á stofn “Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.” Þangað hafa nú fyrirtæki, félög og einstaklingar á Akureyri leitað og kært ofangreindar breytingar á skipulagi miðbæjarins. Sem sagt: Þegar allt um þraut þurftu bæjarbúar að kæra eigin bæjarfulltrúa og stofnunina sem átti að hafa auga með þeim og gera með því úrslitatilraun til að fá opið samtal um breytingarnar eins og löggjafinn leggur áherslu á að ætíð sé gert. Í slíkum samræðum gætu bæjarfulltrúar fært opinberlega rök fyrir breytingum, sem þeir hafa aldrei gert í þessu tilviki, bæjarbúum gæfist ennfremur kostur á að koma með athugasemdir sem yrðu vegnar og ræddar en ekki stungið undir stól eins og gert var. Ef allt væri með felldu hefði síðan verið komist að sameiginlegri niðurstöðu eins og í aðdraganda samþykktar bæjarstjórnar um sama mál árið 2014. Þess í stað forðaðist núverandi bæjarstjórn í öllu ferlinu að ræða beint við bæjarbúa um þetta þýðingarmikla málefni. Engu líkara en þeir óttist eigin samborgara.
Mikilvægur úrskurður
Nú er beðið eftir úrskurði nefndarinnar og þá gæti tvennt gerst. Beint verði til bæjarstjórnar að taka upp þráðinn við bæjarbúa með eðlilegum samtölum við þá og afgreiða málið upp á nýtt eftir það. Hin niðurstaðan gæti orðið að þessi dæmalausu vinnubrögð bæjarstjórnar verði samþykkt eins og Skipulagsstofnun lét sér sæma að gera. Ef svo ótrúlega færi er ljóst að þar með yrði gefið grænt ljós á að bæjarstjórn Akureyrar geti lokað sig inni og þurfi ekki að hafa nokkurt samráð við almenning um málefni sem skiptir íbúa miklu eins og raunin er í þessu tilviki. Í kjölfarið gætu aðrar sveitastjórnir komist hjá að ræða slík mál við sína umbjóðendur og gefið sig alfarið að því að þjóna sérhagsmunum. Þá væru góð ráð orðin nokkuð dýr og vandséð hvernig löggjafinn getur setið hjá og látið sig málið engu varða.
Einkennileg staða
Hvað sem því líður er nú svo komið að almenningur á Akureyri á ekki annan kost í máli þessu en að snúa sér til nefndar fyrir sunnan til að komast að eigin bæjarfulltrúum og ræða við þá á jafnræðisgrundvelli. Þeir hafa lokað sig af innan bergmálslausra veggja Ráðhússins og ansa bæjarbúum ekki nema kannski innan þessarar sömu múra og þá allt í leyni en alls ekki fyrir opnum tjöldum. Getur staðan orðið öllu snautlegri?
Ragnar Sverrisson
kaupmaður