20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Að flugi!
Við Íslendingar búum í stóru og dreifbýlu landi með fáum og því ljóst að góðar samgöngur eru grundvöllur fyrir búsetugæði. Það er því ekki að undra að málefni innanlandsflugs og kostnaðar vegna þess brenni á íbúum landsbyggðanna.
Greiðar og aðgengilegar samgöngur skipta lykilmáli bæði fyrir íbúa og atvinnurekendur á svæðunum utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem flytja þarf vörur og þjónustu á milli landshluta. Þetta er þannig ekki síður mikilvægt þegar kemur að samkeppni um gott starfsfólk sem oft veigrar sér að flytja á landsbyggðirnar vegna þess hve dýrt er að ferðast á milli landshluta. Greiðar flugsamgöngur ráða því oft miklu um það hvort fólk festir rætur á nýjum stað eða ekki, en þar spilar einnig inn í aðgengi að heilbrigðisþjónustu, afþreyingu og verslun. Það er því ljóst að mikilvægt er að horfa til leiða sem stuðla að verðlækkun í innanlandsflugi.
Við í Samfylkingunni styðjum það að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur og að skoska leiðin svokallaða verði komið til framkvæmda á Íslandi, en hún felur í sér að íbúar í dreifðum byggðum fái niðurgreidd flugfargjöld. Við teljum að með því eflist samfélögin á landsbyggðunum enn frekar og jöfnuður um aðgengi að höfuðborginni náist. Þar er auðvitað lykilatriði að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni svo lengi sem enginn annar jafn góður eða betri kostur verði í boði.