Ábyrgðin er hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Félagsmenn í Einingu-Iðju geta á margan hátt verið ánægðir með atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning á almenna vinnumarkaðnum, þátttaka félagsmannanna var um 23% á meðan meðaltalið var um 13% á landsvísu.  Samningurinn var samþykktur af yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem kusu.

Eining-Iðja undirbjó kjaraviðræðurnar af kostgæfni, þar sem grasrótin var kölluð að borðinu á öllum stigum. Um 2000 félagsmenn tóku þátt í mótun kröfugerðarinnar í könnunum og á fjölmörgum fundum sem haldnir voru á öllu félagssvæðinu.

Öflugt trúnaðarmannakerfi átti líka sinn þátt í að kosningaþátttaka á Eyjafjarðarsvæðinu var almennari en annars staðar á landinu.

Annar boltinn er hjá stjórnvöldum

Eitt helsta markmið verkalýðshreyfingarinnar var að hækka lægstu laun og að hækkunin yrðu í krónum en ekki prósentum. Með samningnum telur verkalýðshreyfingin að forsendur hafi skapast fyrir lítilli verðbólgu og lækkun vaxta, heimilum og atvinnulífinu til hagsbóta.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningaborðinu var mikilvæg, meðal annars lofuðu stjórnvöld að lækka skatta þeirra sem hafa minnstar tekjur. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að komið verði á fót þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Miðað er við að þessi aðgerð auki ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins um tíu þúsund krónur á mánuði.

Fleiri atriði er varðar aðkomu stjórnvalda mætti nefna, svo sem úrbætur í húsnæðismálum.

Verkalýðshreyfingin mun fylgja því fast eftir að ríkisstjórnin standi við gefin fyrirheit, svör um efndir þurfa að liggja fyrir sem allra fyrst. Verkafólk mun ekki sætta sig við annað en að aðgerðir hins opinbera komi fljótlega til framkvæmda.

Launafólk hefur axlað sína ábyrgð með því að samþykkja samning sem stuðlar að stöðugleika.

Núna er komið að stjórnvöldum.

Hinn boltinn er hjá atvinnurekendum

Það hefur ekki farið fram hjá landsmönnum að stórfyrirtæki hefur tilkynnt um verðhækkanir á vörum fyrirtækisins í kjölfar undirritunar kjarasamninga.

Þetta er mikið ábyrgðarleysi og vinnur augljóslega gegn markmiðum samninganna.

Verðlagseftirlit ASÍ mun fylgjast náið með verðbreytingum og koma öllum upplýsingum til neytenda.

Til þess að sýna atvinnurekendum aðhald, er mikilvægt að neytendur séu á verði og taki upplýstar ákvarðanir um innkaup sín.

Neytendur geta stýrt ferðinni í þessum efnum, standi þeir saman.

Ábendingar um verðhækkanir er hægt að senda verðlagseftirliti ASI, hægt er að nálgast allar upplýsingar á vef sambandsins, www.asi.is.

Verkalýðshreyfingin hefur axlað sína ábyrgð með því að stuðla að stöðugleika.

Núna er röðin komin að atvinnulífinu.

Gott veganesti

Í aðdraganda kjaraviðræðnanna síðasta haust,  töluðu margir um „harðan kjaravetur.“ Á ýmsan hátt má segja að sú spá hafi gengið eftir. Þótt veturinn sé liðinn, er staðan sú að enn á eftir að ganga frá fjölmörgum kjarasamningum. Næsta verkefni er að ganga frá kjarasamningum við ríki og sveitarfélög. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt það og sannað að hún er traust og öflug. Þökk sé félagsmönnum. Sú staðreynd er gott veganesti vegna komandi viðræðna.

Gleðilegt sumar, allir landsmenn.

-Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands

Nýjast