Ábyrgð foreldra og skóla

Helga Dögg Sverrisdóttir
Helga Dögg Sverrisdóttir

Nú þegar skólastarfið er hafið á nýju ári er margt sem foreldrar og starfsmenn skóla þurfa að hafa í huga. Grein landsformannsins Mette With Hagensen, samtaka ,,Skole og Forældre“,  í Danmörku kom upp í huga mér og því ákvað ég að deila inntaki hennar hér. Greinin var skrifuð 2015.

Sem foreldrar vitum við að það er á okkar ábyrgð að barn komi vel hvílt í skólann, með hollt nesti í skólatöskunni sem og réttar bækur og íþróttaföt. Við vitum líka að okkur ber að lesa með barninu í 20 mínútur á hverjum degi. En hver ber ábyrgðin þegar kemur að lærdómnum og líðan barns í skóla, er það skólans eða foreldranna?

Spurningin er ekki einföld og þegar eitthvað kemur upp á í skólanum stöndum við í þeim sporum að væntingar til hvors annars eru ólíkar. Afleiðingarnar geta orðið viðameira vandamál og þeim jafnvel fjölgað. Danski landsformaðurinn telur að skólaráð eigi að leggi fram ramma um samvinnu milli skóla og heimilis þar sem ábyrgð hvors aðila er hluti af rammanum.

Í dönskum lögum um grunnskóla stendur að skólaráð skuli búa til ramma um samvinnu milli heimilis og skóla en ekki var rætt um ábyrgð umræddra aðila. Lögunum var því breytt, samhliða bættri skólanámskrá, þannig að skólaráð á að bæta inn ábyrgð beggja aðila þegar kemur að samvinnu um nemanda.

Rýmkun rammans gefur einstakan möguleika til að tala saman um hver gerir hvað og hvers vegna, eða með öðrum orðum, þegar drengurinn man ekki hvaða heimanám er sett fyrir næsta dag hver ber ábyrgðina á að styðja hann og hjálpa og ekki síst að láta hann læra heima? Getum við sem foreldrar búist við að kennarinn tryggi að drengurinn hafi skrifað heimanám sitt niður eða á kennarinn að skrifa það á Mentor. En hvað með foreldrana, getum við tryggt að þeir kíki í töskuna eða kíki á Mentor á hverjum degi og noti tíma til að hjálpa syninum með heimanámið? Spurningunum er ekki auðsvarað en dæmið er eitt af fjölmörgum þar sem væntingar skóla og heimilis geta verið ólíkar. Með víkkun heimildar til skólaráðs þurfa meðlimir þess að spyrja sig hvaða væntingar gerum við til annars vegar foreldra og hins vegar skólans sem er lykilatriði til að samvinna milli heimilis og skóla sé góð. Skólaráð hefur nú möguleika að skilgreina væntingarnar því þær eiga að vera skriflegar og aðgengilegar.

Með nýju orðalagi laganna þarf skólaráð að spyrja sig hvaða væntingar má gera til viðeigandi aðila til að skapa góða samvinnu milli heimilis og skóla.

Þær spurningar geta verið:

Hvaða væntingar gerum við í skólanum til þátttöku foreldra á foreldrafundum og í fag- og félagslegum þáttum?

Hvaða markmið höfum við um hvað skólinn og foreldrar fái út úr viðtölum.

Hvaða ábyrgð hafa foreldrar gagnvart skilningi barns síns þegar kemur að góðri hegðun?

Hvaða ábyrgð hafa foreldrarnir að barn þeirra sé tilbúið til náms þegar það mætir í skólann?

Hve mikið og hvernig getur maður ætlast til að foreldrarnir styðji við nám barnsins og noti sjálfir tíma til heimanáms?

En þetta er líka spurning um:

Að hve miklu leyti geta foreldrar búist við að skólinn taki tillit til að fjölskyldur séu ólíkar?

Að hve mikli leyti geta foreldrar búist við að skólinn geti tekið ábyrgð á að börn eigi í vandræðum heima fyrir?

Hvaða kröfur geta foreldrarnir gert m.t.t. upplýsinga um barn þeirra og bekkjarins þegar fag- og félagsleg þróun í bekknum er annars vegar?

Hvernig og að hve miklu leyti á skólinn að upplýsa um nám barns?

Spurningarnar eru margar og svörin álíka mörg, því hvert barn og aðstæður þess eru ólíkar sem og lausnirnar. Rammi skólaráðs þarf að taka á mörgum ólíkum tilfellum en samt sem áður vera skilmerkilegur þannig að skóli og foreldrar viti hvers ber að vænta, hvorir af öðrum.

Og hver ber svo ábyrgðina? Það gerir skólinn og foreldrarnir, því einungis er hægt að leysa verkefnið saman og börnin eiga að sjálfsögðu að taka ábyrgð eins og þeim er unnt.

Í öðrum greinum sem undirrituð hefur skrifað hefur komið fram mikilvægi þess að foreldrar axli þá ábyrgð sem fylgir því að eiga barn. Skólinn er vinnustaður barns og námið er vinna. Foreldrar bera höfuðábyrgð á að námið gangi sem best fyrir sig, t.d. þjálfun í lestri og eftirfylgni á heimanámi. Undir engum kringumstæðum má taka ábyrgðina af foreldri þegar heimanám barns er annars vegar, nema að aðstæður heimafyrir séu þess eðlis að annað er ekki hægt.

Vel má hugsa sér að skólar og foreldrar (sem þess þurfa) geri með sér samkomulag í upphafi skólaárs hvernig staðið skuli að málum þannig að engnn velkist í vafa hvar ábyrgðin liggi. Því miður er þróunin sú að málefni sem koma skólastarf ekki við læðist inn á borð umsjónarkennara og við því þarf  að sporna.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

Greinin er að mestu byggð á greininni: http://skole-foraeldre.dk/artikel/for%C3%A6ldrenes-og-skolens-ansvar

Nýjast