2000 í einangrun og Sjúkrahúsið á Akureyri á hættustigi
Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru í dag skráðir um 2000 í einangrun vegna Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Sjúkrahússins á Akureyri.
Tólf eru inniliggjandi á sjúkrahúsinu á Akureyri með Covid-19, einn á gjörgæsludeild og er Sjúkrahúsið á hættustigi.
„Milli sextíu og sjötíu starfsmenn Sak eru fjarverandi vegna Covid-19 og er það ein aðaláskorunin þessa dagana. Skoðað er dag frá degi hvernig tekist er á við mönnunina. Minnt er á bakvarðalistann og þeir sem hafa möguleika á að skrá sig á listann eru eindregið hvattir til þess,“ segir í tilkynningunni.
Frá miðnætti var öllum takmörkunum varðandi Covid-19 aflétt í samfélaginu og er staðan því nokkuð breytt. Áfram er þó mælst til þess að almennt séu viðhafðar persónubundnar sóttvarnir.
Þá er greint frá því að í ljósi fjölda smita í samfélaginu og mönnunarvanda á sjúkrahúsinu sé talið mikilvægt að halda áfram þeim smitvörnum sem í gangi eru á SAk. Engar breytingar eru því að svo stöddu t.d. varðandi takmarkanir á heimsóknum, grímunotkun, notkun á hlífðarfatnaði eða þjónustu í mötuneyti. Þetta verður skoðað nánar eftir helgina.