6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
19 milljónir í rannsóknarstyrk frá Rannís Góðar og sanngjarnar staðsetningar fyrir þyrlur til sjúkraflutninga
Björn Gunnarsson, dósent við Heilbrigðisvísindastofnun HA og yfirlæknir sjúkraflugs við Sjúkrahúsið á Akureyri, fékk nýverið úthlutað 19 milljón króna í rannsóknarstyrk frá Rannís fyrir rannsóknaverkefni sitt. Tilgangur rannsóknarinnar er að finna góðar og sanngjarnar staðsetningar fyrir þyrlur til sjúkraflutninga á Íslandi.
„Heildarflutningstími í sjúkraflugi á Íslandi er oft langur og líklegt að það hafi áhrif á horfur sjúklinga með tímanæman heilsuvanda,“ segir Björn um sjúkraflug á Íslandi í frétt sem birt er á heimasíðu Háskólans á Akureyri.
Niðurstöður munu gera rannsakendum kleift að gera tillögur um staðsetningar á bækistöðvum fyrir þyrlur sem best mæta þörfum samfélagsins og stuðla að jöfnuði og jafnvel bættum horfum mikið veikra og slasaðra sjúklinga.
„Ég er mjög ánægður að fá þennan styrk þar sem aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er misskipt eftir búsetu og tel það mikilvægt að leita leiða til að jafna þann mun eins og hægt er,“ segir Björn.
Frá þessu segir á heimasíðu UNAK.