Nýlega bárust fréttir af áformum dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, um að fækka sýslumannsembættum á landinu úr níu í eitt. Hvergi má finna þessar róttæku breytingar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hef ég miklar efasemdir um ágæti þeirra.
Embætti sýslumanna eru gamalgrónar og traustar stjórnsýslu- og þjónustustofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Alþingi hefur með lögum falið sýslumannsembættunum að fara með framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Verkefni þeirra eru umfangsmikil en þau eru talin upp í um 100 lagabálkum og 400 stjórnvaldsfyrirmælum. Engar aðrar stofnanir starfa á jafn víðtækum grundvelli og heyra verkefni þeirra undir flest fagráðuneyti Stjórnarráðsins. Þá má nefna að árið 2018 nýtti ríflega helmingur landsmanna sér þjónustu embættanna.