„Enginn ísskápur hvað þá frystikista á okkar heimili frekar en öðrum í þá daga“
Ingólfur Sverrisson skrifar
Laugardagur og lífið gekk sinn vanagang í Ránargötu 16 enda voru þeir dagar hver öðrum líkir upp úr miðri 20. öldinni. Eftir að hafa senst suður í Alaska að kaupa mjólk og brauð bað mamma mig að fara niður á Tanga í geymsluna okkar í Íshúsinu að sækja slátur og lifrarpylsu sem þar voru í geymslu ásamt öðru góðgæti. Enginn ísskápur hvað þá frystikista á okkar heimili frekar en öðrum í þá daga. Þar með var búið að hugsa fyrir kvöldmatnum en síðan fórum við mamma gjarnan í framhaldinu saman í Reykhúsið, syðst í Norðurgötunni, á fund Finnboga vinar okkar sem seldi besta hrossakjötið. Með þessum síðustu aðgerðum var sunndagssteikin komin í hús og mér óhætt að fara út að leika mér með hinum krökkunum úr nágrenninu.