Er 13 ára nýja 18 ára aldurstakmarkið?
„Er aldurstakmarkið á samfélagsmiðlum 12 ára eða 13 ára?“
Þetta er algeng spurning frá bæði börnum og foreldrum þegar að ég ræði við þau um samfélagsmiðla í fræðsluerindum. Inná App Store stendur 12 ára en í skilmálum samfélagsmiðlanna stendur 13 ára. Af þessu tvennu trompa skilmálar framleiðandans rangar vörumerkingar endursöluaðilans og aldurstakmarkið inn á flesta samfélagsmiðla er því 13 ára.
Þetta ósamræmi er þó ruglingslegt og vekur upp spurningar um það hver hafi ákveðið að samfélagsmiðlar væru viðeigandi fyrir 13 ára börn og af hverju? Stutta svarið er samfélagsmiðlarnir sjálfir og ástæðan er á einföldu máli sú að persónuverndarlöggjöf bannar þeim að safna gögnum um börn sem eru yngri en 13 ára. Vernd barna gegn skaðlegu efni kemur hér málinu ekkert við.