XL fyrir lífsgæði

Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson.
Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson.

Í kosningunum 26. maí fáum við Akureyringar tækifæri til að segja okkar skoðun á því hvernig við viljum hafa bæinn okkar. Til að láta í ljós skoðun okkar þurfum við að velja okkur lista og þá vandast valið. Mikið hefur verið rætt um að það sé lítill munur á flokkunum og það er eflaust rétt þegar óskalistanum er þjappað niður í örstutta áherslupunkta.

Munurinn liggur í því hvernig unnið er að málunum og L-listinn hefur þá sérstöðu að vera listi sem er tileinkaður bæjarbúum, en ekki einhverri ákveðinni þeóríu um hægri eða vinstri,  einkavæðingu eða ríkisrekstur. Við þekkjum Akureyri og gerum það sem er best fyrir bæinn og bæjarbúa hverju sinni.

L-listinn hefur sterkar skoðanir á því hvernig má bæta lífsgæðin hjá öllum Akureyringum og við hvetjum ykkur til að koma á skrifstofu okkar og ræða málin. Við viljum meðal annars:

Fjölbreytt dagvistunarúrræði fyrir börn frá fæðingarorlofi og fram að leikskóla, til að tryggja að fólk hafi val um leiðir. Við viljum bjóða upp á heimgreiðslur fyrir foreldra og einnig styrkja dagforeldrakerfið, sem hvort tveggja eykur svigrúm til að taka við börnum á leikskóla strax við 12 mánaða aldur.

Íþrótta- og tómstundastarf yngstu barna í grunnskóla komi inn í stundaskrána. Börnin kynnist mörgum íþróttagreinum, tónlist, myndlist, handverki og fleira. Minnkum íþróttaskutlið sem kostar tíma og peninga og veldur mengun.

Vinna að því að vera með framúrskarandi skóla með því að styðja betur við nemendur og starfsfólk, auka vægi skapandi náms, ráðgjöf og stoðþjónustu í meira mæli inn í skólana og leita allra leiða til að minnka álag á kennara. Þannig aukast líkur á að hægt sé að bregðast fyrr við ef börn lenda í tilfinningalegum eða geðrænum vanda.

Byggja upp þétt öryggisnet sem grípur snemma þá sem þess þurfa og bæta geðheilbrigðisþjónustu auk þess að koma upp áfangaheimili.

Byggja upp leigumarkað í samvinnu við óhagnaðardrifin félög og kanna möguleikann á að koma á kaupleigukerfi. Leggjum áherslu á fjölbreytt úrræði til að auka valmöguleika íbúa.

Þjónusta við aldraða verði gerð skilvirkari og upplýsingagjöf og umsóknarferli einfölduð. Útbúum handbók sem inniheldur ítarlegar leiðbeiningar um hvað er í boði og hvert skuli sækja þjónustuna ásamt því hver réttur einstaklingsins er. Nýtum tæknilausnir í meira mæli og spörum tíma, bæði hjá einstaklingum sem og aðstandendum.

Beint flug frá Akureyri til London eða annarrar borgar í Evrópu sem er sjálf sterkur áfangastaður og gefur að auki fjölbreytta tengimöguleika. Þetta verkefni gæti til dæmis verði boðið út á hliðstæðan hátt og akstur strætisvagna á milli Akureyrar og Reykjavíkur. L-listinn vill líka að Akureyrarbær hafi beina aðkomu að því, ef þörf krefur, að bæta aðstöðu á Akureyrarflugvelli með stækkun flugstöðvarinnar, byggingu flughlaðs og gerð lóða fyrir flugtengda þjónustu.

Komið endilega við á skrifstofu okkar og fáum okkur kaffi saman. Okkur tekst betur til við að þjóna ykkur ef við höfum náð að tala saman. Ef þú vilt kynna þér stefnumál L-Listans í heild sinni eru þau aðgengileg á heimasíðu okkar, www.l-listinn.is  eða á Facebook síðu okkar.

Taktu þátt í því með okkur að gera Akureyri að ennþá betri bæ með því að kjósa L fyrir Lífsgæði.

-Halla Björk skipar 1. sæti og Andri 2. sæti á L-Lista fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri

Nýjast