20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Við þurfum ekki að óttast framtíðina
Þessar vikurnar og næstu mánuði mun Akureyrarbær kynna nýtt aðalskipulag fyrir Akureyri sem mun gilda 2018- 2030. Íbúar er hvattir til að fylgjast vel með, vera meðvitaðir um gildi skipulagsins og framtíð þess. Skila óhikað inn athugasemdum til að hafa sem mest áhrif á nærumhverfi sitt næstu 12 árin.
Hvað er það sem við óttumst hvað mest, líklega eru það breytingar í umhverfi okkar.
Drög að nýju aðalskipulagi voru kynnt í Hofi þann 28. mars síðastliðinn. Þar var farið yfir helstu áherslur og breytingar á núgildandi aðalskipulagi.
Ítarleg greinargerð var kynnt með skipulaginu og eru íbúar hvattir til að lesa hana þar sem fram kemur nánar, um útfærslur og tilgang breytinga. M.a. áætlanir um þéttingu byggðar víða innan bæjarmarkanna.
Munum við þetta með hana Lilju, voru það ekki nokkrir sem vildu hana kveðið hafa?
Ég spyr vegna þess að ekki hafa orðið breytingar á skipulagi í bæjarfélaginu án þess að hávær mótmæli hafi komið fram.
Nefnum dæmi sem hafa í raun nánast sett þetta samfélag á hliðina en eftir á eru flestir sáttir við niðurstöðuna.
Dalsbraut og miðbæjarskipulag. Þar fór fram góð kynning og mikið samstarf þó auðvitað sé það svo að allir geti ekki alltaf verið sáttir með allt. Ef við stefnum á að allir séu sammála þá er líklegast við myndum aldrei gera neitt. Bærinn myndi staðna og hér myndi verða íbúafækkun í stað fjölgunar sem er mikilvæg til að geta styrkt stoðir sveitarfélagsins og staðið undir uppbyggingu á öllum lífsins gæðum.
Það er varla sá maður í dag sem mælir á móti þessum framkvæmdum.
Hvers vegna er þetta alltaf svona? Svarið er líkast til það að við óttumst breytingar og viljum helst hafa hlutina einsog þeir hafa verið í áratugi.
Það er vel skiljanlegt að þegar íbúar sjá að það á allt í einu að fara að framkvæma í bakgarðinum hjá þeim þá verði fólk ósjálfrátt smeykt um að þetta verði til hins verra og það komi til með hafa slæm áhrif á nærumhverfið.
Það eru vissulega til dæmi um ákvarðanir í skipulagsmálum sem hafa verið illa ígrundaðar og ekki verið úthugsaðar með þarfir íbúa í huga. Þess vegna er lykilatriði að íbúar og aðrir hagsmunaðilar sendi inn ábendingar til að hafa áhrif á nýtt aðalskipulag.
Er það ekki okkar að deila lífsgæðum með öðrum og nýta betur þá innviði sem eru til staðar, það getum við t.d. gert með þéttingu byggðar víða um bæjarfélagið með tilliti til skólastofnana og íþróttasvæða.
Vissulega eru mörg eldfim mál kynnt í þessum drögum að skipulagi. Saman ætlum við að finna lausnir sem við getum verið stolt af og haft áhrif á til lengri tíma. Að lokum hvet ég ykkur enn og aftur að kynna ykkur skipulagið á heimsíðunni akureyri.is
Höfundur er bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar.