Traust efnahagslíf án öfga
Á undanförnum árum höfum við náð góðum árangri í efnahagsmálum þjóðarinnar. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað umtalsvert og fjárhagur heimilanna hefur vænkast. Sé litið á þróun síðustu ára á föstu verðlagi má sjá að eignir heimilanna hafa aukist allt frá árinu 2013 og skuldir hafa minnkað stöðugt frá árinu 2009, þetta sýna opinberar tölur. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 600 milljarða frá árinu 2011 og þar af rúmlega 200 milljarða það sem af er þessu ári. Þessi ávinningur af trausti efnahagsstjórn er umtalsverður, með lækkandi skuldastöðu dregur úr vaxtagjöldum ríkissjóðs, sem er mjög mikilvægt svo hægt sé að nýta þá fjármuni í enn frekari uppbyggingu. Til að setja vaxtagjöld ríkissjóðs í samhengi má benda á að vaxtakostnaður nam um 70 milljarða á síðasta ári og hafði þá dregist saman um 10 milljarða á milli ára, vaxtakostnaður ríkisins er meiri en rekstrarkostnaður Landspítalans.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir nauðsyni þess að halda áfram að draga úr skuldum ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnaðinn. Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram á þessari braut samhliða því að lækka byrðar heimilanna. Það er varhugavert að snúa þessari þróun við. Ákveðnir flokkar lofa stórkostlegri útgjaldaaukningu sem verður ekki gerð nema með aukinni skattheimtu og samdrætti í niðurgreiðslu skulda.
Í því ljósi er vert að benda á róttækustu útgjaldahugmyndirnar sem koma frá Vinstri hreyfingunni, grænu framboði. Í þeim tillögum sem lagðar voru fram við afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar fyrir árin 2018- 2022 er gert ráð fyrir stórtækum útgjaldahækkunum sem fjármagna á með skattahækkunum. Þessar tillögur eru uggvænlegar eins og myndin hér gefur til kynna en með þeim myndi skattbyrði á hvert mannsbarn hækka um 155.247 kr. að meðaltali (miðað við mannfjölda, 343.960 manns skv. Hagstofu Íslands) á næsta ári og fara stigvaxandi til ársins 2022 þegar upphæðin myndi nema 970.753 kr. að meðaltali. Þetta er fullkominn kúvending frá núverandi stefnu.
Við þurfum að halda áfram traustri uppbyggingu á íslensku atvinnulífi, traust og stöðugt efnahagslíf án öfga er forsenda framfara fyrir okkur öll.
-Virðingarfyllst, Njáll Trausti Friðbertsson. Skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi