20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tómstundastarf eldri borgara á Akureyri
Þess ber alltaf að geta, sem vel er gert ekki síður en það, sem miður fer og langar mig aðeins að minnast á það, sem eldri borgurum á Akureyri stendur til boða. Fjölbreytt og áhugavert tómstundastarf eldri borgara er til mikillar fyrirmyndar, fjölbreytt og uppbyggilegt efni er um að ræða. Dagskrá alla daga vikunnar nema um helgar á báðum stöðum þ.e. í Víðilundi 22 og Bugðusíðu 1 og yfirleitt frá kl. 9 að morgni til kl. 16 síðdegis. Og eins og stundum er sagt eitthvað fyrir alla og væri að æra óstöðugan að telja það allt upp í stuttri blaðagrein.
Kemst þó ekki hjá að stikla örlítið á stóru í þeim efnum. Þarna má finna ýmis gagnleg námskeið svo sem handverk þ.e. útsaum, listmálun, trésmiðja opin og postulín að ógleymdri vinsælu félagsvistinni á mánudögum, en allt þetta og meira til er í Víðilundinum. Í Bugðusíðunni má aftur á móti finna m.a. ýmiss konar handverk og einnig billjard, leikfimi, stólajóga og svo er einnig spiluð þar félagsvist og bridge. Afburða vinsæl er t.d. félagsvistin, sem spiluð er þar á fimmtudagskvöldum, og fjöldi fólks tekur iðulega þátt í. Hér hef ég aðeins, eins og fyrr segir stiklað á stóru í frábæru starfi, sem eldri borgurum á Akureyri er boðið upp á.
Kráarkvöldin
Ég kemst samt ekki hjá því í restina að vera svolítið neikvæður, þar sem ég veit að ég tala ekki síður fyrir munn margra annarra, en það eru svokölluð ágæt kráarkvöld, sem haldin eru í Bugðusíðunni einstaka sinnum á laugardagskvölum, eldfjörug fyrir fullu húsi en allt of sjaldan.
Það rak marga í rogastans þegar að tikynnt var nú í vor, síðasta kráarkvöld 6. apríl sl. Hvað á þetta að þýða? Mér finnst og fleirum að þessi vel sóttu og skemmtilegu kvöld með dunandi músík og dansi mættu þess vegna vera um aðra hverja helgi frá september og fram í júní ár hvert eins og t.d. spilavistirnar.
Ég vil minna á að dunandi dans við góða músík eins og um er að ræða á kráarkvöldunum er ein sú besta líkamsrækt, sem til er og er það margviðurkennt, svo ég tali nú ekki um fyrir fullorðna liði, sem eru að byrja að stirðna eftir langa tíð. Ég ætla að vera svo djarfur að lýsa mikilli vanþóknun minni yfir slíku ráðslagi og spyr: Er þetta áhugaleysi eða leti þeirra, sem í hlut eiga?
Höfundur er eldri borgari á Akureyri, sem hefur óstjórnlega gaman af að dansa og hreyfa sig