Tímar glataðra tækifæra eða uppbyggingar

Svona verður heildarútlit miðbæjarins og hafnarsvæðisins samkvæmt gildandi miðbæjarskipulagi.  Greið…
Svona verður heildarútlit miðbæjarins og hafnarsvæðisins samkvæmt gildandi miðbæjarskipulagi. Greiðar og skjólsælar gönguleiðir niður að hafnarsvæðinu ásamt grænum reitum milli húsa. Vistvæn Glerárgata tryggir gott sambýli akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda. Myndin sýnir ekki endanlega útfærslu eða hönnun einstakra húsa, aðeins staðsetningu þeirra og hæð.

Getur verið að Akureyringar vilji hverfa frá því að gera miðbæinn vistvænan eins og stefnt er að með núgildandi deiliskipulagi? Er hugsanlegt að gengið verði þvert gegn allri þróun síðari ára víða um lönd þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á að miðkjarnar bæja og borga séu aðlaðandi og líflegir fyrir íbúa og gesti þeirra? Þessar spurningar vakna við síðustu athafnir bæjaryfirvalda þar sem erfitt er að átta sig á hvort verið er að halda áfram í samræmi við markaða stefnu eða gefa sig stefnu- og aðgerðarleysinu algjörlega á vald. 

Stundum geta flækjustig og vandræðagangur orðið brosleg og jafnvel hlægileg enda þótt afleiðingarnar verði oft grafalvarlegar einkum ef grínið kemur niður á fjölda manns, jafnvel heilu bæjarfélagi.  Þannig er nú komið fyrir okkur Akureyringum því eyðumerkurganga bæjaryfirvalda við að koma samþykktu skipulagi miðbæjarins í framkvæmd síðustu fimm árin er orðin næsta farsakennd. Þessi atburðarrás hófst þegar hópur áhugafólks, undir yfirskriftinni "Akureyri í öndvegi," gaf bænum 152 vandaðar tillögur færustu arkitekta víða að úr heiminum um nýtt skipulag miðbæjarins. Þær byggðu á niðurstöðu fjölmenns íbúaþings um þetta efni.  Eins og ég hef áður rakið á þessum vettvangi átti þetta viðamikla sjálfboðaliðastarf ríkan þátt í því að samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014 nýtt deiliskipulag fyrir miðbæinn sem enn er í gildi.  Um þetta skipulag var full samstaða í bæjarstjórn og því lýst í ítarlegri greinargerð hvernig gera á viðbótina við miðbæinn, austan Skipagötu, að vistvænu svæði með ýmiss konar þjónustustarfsemi ásamt íbúðabyggð. Þar er lögð áhersla á að ná góðu skjóli fyrir ríkjandi vindáttum, mynda greiðar leiðir frá miðbænum niður að Pollinum og að nýjar byggingar taki mið af þeim sem fyrir eru í miðbænum. Allt klárt árið 2014 til framkvæmda eftir áralang starf. En þá byrjaði vandræðagangurinn fyrst að grassera fyrir alvöru sem náði hámarki nú á miðju sumri og svo allra síðustu daga.

Nefnd á nefnd ofan

Síðasta vetur setti bæjarstjórn af stað vinnu í sérstakri nefnd til að ákveða framtíðarstaðsetningu miðbæjarstöðvar SVA (umferðarmiðstöðvar) enda þótt sú ákvörðun hafi þá þegar legið fyrir í rösk fjögur ár í gildandi deiliskipulagi. Nefndin komst auðvitað að því að sú ákvörðun, að hafa miðstöðina fyrir norðan ráðhúsið, væri skynsamleg. Hins vegar stóð í nefndarmönnum að leggja til að bæjaryfirvöld kæmu sér að þessu verki og lagði því jafnframt til aðra tillögu sem fólst í að útbúa stæði á svæðinu fyrir neðan Nýja bíó til bráðabirgða þar sem rútur og strætó gætu stoppað án þess að bjóða slysahættu heim.  Þessir tveir valkostir voru síðan sendir skipulagsráði með greinargerð. Vandaðist nú málið því þar með þurfti ráðið að mynda sér skoðun og ákveða hvorri tillögunni það mælti með við bæjarstjórn. En þá kom bjargráðið sem gat haldið málinu í bið um hríð því ákveðið var að vísa tillögunum til enn nýrrar nefndar sem bæjarráð hafði samþykkt á fundi í sumarfríi bæjarstjórnar.  Þeirri nefnd er ætlað að endurskoða gildandi deiliskipulag miðbæjarins - hvorki meira né minna. Sem sagt: Málinu vísað til nýrrar nefndar enda mjög farsælt að velta því þannig áfram og halla sér síðan óskipt að aðgerðarleysinu. Þess er þó skylt að geta að tveir nefndarmenn (Orri Kristjánsson (S) og Þórhallur Jónsson (D)) létu bóka: "Við óskum eftir að tekin verði ákvörðun sem fyrst um framtíðarstaðsetningu miðbæjarstöðvar svo hægt sé að úthluta lóðinni Hofsbót 2 og hefja uppbyggingu í miðbæ Akureyrar." Mér er nær að halda að þetta sé í fyrsta skipti sem nefnt er í bókum bæjarins að máli skipti að hefja uppbyggingu á miðbæjarsvæðinu. Það út af fyrir sig eru töluverð tíðindi í allri þessari ördeyðu.

Ragnar Sverrisson

Greið leið frá miðbæ niður að Polli.

Þá er rétt að víkja að hlutverki hinnar nýju nefndar sem samþykkt var á lokuðum fundi bæjarráðs  4. júlí síðastliðinn.  Þar er sagt "að farið verði í vinnu við endurskipulagningu miðbæjar Akureyrar þar sem m.a.  verði skoðað hvort áfram eigi að miða við færslu Glerárgötu eða miða við núverandi legu hennar." Þetta veganesi er frekar loðið og teyjanlegt enda virðist allt skipulagið undir í þessari vinnu þó Glerárgatan sé nefnd sérstaklega til sögunnar. Lítum á það.

Í greinargerð með gildandi miðbæjarskipulagi segir: Skipulagið "miðar að því að efla möguleika til vistvænna ferðamáta þannig að dregið verði úr þörf fyrir notkun einkabílsins." Síðan segir að umferðaröryggi á og við Glerárgötu verði bætt og henni breytt í aðlaðandi bæjargötu frá Kaupvangsstræti norður að gatnamótum Grænugötu .." Á þessum kafla verði götunni breytt úr fjórum akreinum í tvær og umferðarhraðinn lækkaður í 40 km/klst. Svo segir: "Með þessum breytingum ásamt nýjum byggingum vestan götunnar verður Glerárgata, Pollurinn og Hof órjúfanlegur hlutur miðbæjarins," eins og íbúaþingið sæla óskaði eftir.

Þröngur og óvistvænn miðbær?

Á teikningu hér á síðunni má sjá að ráð er gert fyrir að Glerárgatan ofan við Hof verði færð austar og mjókkuð niður í eina akrein í hvora átt til þess að hægja á umferð í anda vistvænna svæða.  Við það eykst byggingarmagn íbúða og verslunar- og þjónustuhúsnæðis auk fleiri grænna reita milli Skipagötu og Hofs um heila 5000 fermetra á þessum dýrustu lóðum í bænum. Þessi tilfærsla hefur staðið í einhverjum sem telja hana óþarfa og dýra. Á móti er bent á að það aukna uppbyggingarsvæði sem út úr því kemur, er ein meginforsenda þess að unnt verði að skapa heildarjafnvægi á svæðinu og nægjanlegt rými fyrir þjónustufyrirtæki, íbúðir,  gesti og gangandi í lifandi miðbæ. Verði það skert - um þessa 5000 fm. -  er verið að tala um allt annan miðbæ, óvistvænni og mun þrengri en núgildandi skipulag gerir ráð fyrir. Vilja íbúar bæjarins það?

Viðráðanlegur kostnaður

Varðandi áhyggjur af miklum kostnaði við að færa götuna til á þessum speli má benda á að verkfæðistofan Efla hefur lagt mat á útgjöld og tekjur í því sambandi. Niðurstöðurnar sýna að  ef farið verður að núgildandi skipulagi um tilfærslu og mjókkun þessa hluta götunnar mun sú framkvæmd kosta röskar 390 milljónir króna.   Það eru vissulega miklir peningar en þá ber þess að gæta að með stækkun byggingarsvæðisins vestan götunnar er áætlað að bærinn fái allt að 100 milljónum króna meira í gatnagerðargjöld auk þess sem fasteignagjöld gefa 15 milljónum króna meira af sér á ári til bæjarsjóðs.  Þetta þýðir að þessi fjárfesting mun skila sér á ca 20 árum og eftir það verður svæðið góð tekjulind fyrir bæjarsjóð auk þess sem hann hefur þá þegar notið ýmiss konar tekna af öflugri atvinnustarfsemi á svæðinu sem annars yrði ekki í boði. Þetta myndi einhver segja að væri ágætur "business" og jaðra jafnvel við að vera skynsamlegt! Það er því mjög aðkallandi að bærin sýni nú loks af sér myndugleik, taki lán fyrir þessum uppbyggilegu og vistvænu framkvæmdum og hefjist handa í stað þess að láta málið velkjast áfram fram og aftur í bæjarkerfinu því það kostar líka mikla fjármuni. Með því að feta þessa leið þurfa útgjöldin ekki að koma niður á öðrum brýnum verkefnum bæjarins eins og einhverjir hafa áhyggjur af.        

Af stað!

Umfram allt: Hættum þessum vandræðagangi.  Allar meginlínur við uppbyggingu vistvæns miðbæjar hafa nú legið fyrir í rösk fimm ár og tímabært að útfæra það sem út af stendur eins og staðsetningu bílastæðahúss og fleira slíkt.  Nota síðan næsta vetur til að undirbúa verkefnið og koma því af stað með hækkandi sól. Bjóða jafnframt út þessar dýrmætustu lóðir bæjarins og hefja frekari útfærslur og framkvæmdir næsta sumar með áhugasömum fjárfestum og byggingarfyrirtækjum. Frekari vandræðangur verður öllum til tjóns og bæjarfélagi okkar til háðungar.  Öllum ætti að vera ljóst að vistvænn og aðlaðandi miðbær hefur mjög mikla þýðingu fyrir eflingu Akureyrar sem raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Er hægt að hugsa sér göfugra verkefni?

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

Nýjast