Þráðbeint úr viðjum visku og vanmáttar
Hér nokkur orð meyrrar móður á miðjum aldri í fullkomnu yfirflæði. Ef hent er í slembiúrtaks útreikning er meðalaldur kvenna líklega í kringum 80 árin, sem þýðir að ég er um það bil hálfnuð. Hvernig í ósköpunum sem það má vera því ég er ennþá bara stelpukjáni. Ég var 40 ára og sólahrings gömul þegar miðlífskrísan helltist yfir mig eins og fljóðbylgja um leið og aftansöngur jóla ómaði í útvarpinu. Hef svolítið verið svamlandi þar síðan í fullkomnum takti við tilfinningarússíbana guðdómlegu gelgjunnar minnar sem er nú aldeilis dásamlegt krydd í krísunni. Þetta er svona eins og að vinna skilaverkefni í fjármálahagfræði á prentvél á sama tíma og taka þolpróf á hlaupabretti, í tímatökum.
Þarna í miðjunni vil ég meina að hlaðist inn lífsspekin og viskan formfestist, svona eins og maður hafi fundið aðalpúslin og við blasi heildarmyndin maður lifandi, já ég er með þetta. En á hliðarlínunni er frekar óvæginn unglingurinn sem föstum skotum skýtur, sláin inn! Maður er víst á stundum gömul og grá, hallærisleg og hægfara, tækniheft og taktlaus. Já einmitt róum okkur aðeins en jú svona er víst lífsins gangur. Skemmtilegt, ég man og glottandi minnist tímans sem mæðuleg móðirin ég hugsaði til þess hve allt yrði auðveldara þegar blessuð börnin yrðu stærri. Góð Gunnlaugsdóttir!
Foreldrið ég þarf statt og stöðugt að minna sjálfa mig og miðla þessu með jafnvægið, það er ekki að ástæðulausu að þusað er um meðalveginn og að hver og einn gangi sinn veg en marseri ekki á hæla einhvers eða áhrifavalds. Suma daga er ég rokkstjarna lífs míns og Beyoncé mjaðma hnykkjast í gegnum daginn með „Run the World“ í kollinum. Þá gustar af mér glimmerið, tek með áhlaupi áskoranirnar og veð í gegnum verkefnin. Ekkert mál fyrir Jón Pál! Aðra daga er ég eitthvað annað og í bakgrunni óma Klaufabárðarnir. Grá og guggin, á lífinu leið, fer heim á einum skó úr vinnunni, já það er hægt, og tannbursta mig með andlitsseruminu. Helvítis fokking fokk! Sem sagt jafnvægi og að meðaltali góð. Fullkomlega ófullkomið eintak sem fyrst og fremst legg mig fram við að gera mitt allra besta.
Dýrmætur aldurinn færir manni ýmis bjargræði í verkefnakistuna. Ef það er eitthvað sem situr eftir í lífsins ólgusjó þá er það máttur æðruleysins. Hugsanlega ef í boði væri æðruleysisprauta sambærileg og bótox brjálæðið sem í gangi er, þá myndi ég mögulega láta eina vaða lóðbeint í ennið. Segja svo bara keep them coming. En það er ekki svo einfalt og í raunveruleikanum er flest sú sjálfsvinna sem sannarlega skiptir máli bara skrambi erfið. Það er ekkert app sem sem hleður inn sjálfstrausti, nærir sálina gegnum usb eða læknar hjartasár. En blessunarlega eru til hjálpartæki fyrir vegferðina sambærileg og vatnsappið sem undirrituð sótti en var við hættumörk drukknunnar sökum rangrar mælieiningar skráningar. En það er önnur saga sem felur í sér verulegt frárennsli!
Sem fyrr talaði Jónas Sigurðsson tónlistarmaður beint við hjarta mitt þegar hann m.a. mælti „ Af hverju er ekki nóg bara að vera“. Jú það er nefnilega bara alveg hreint meira en nóg og ærið verkefni. Að vera og takast á við tilfinningarnar í öllum litbrigðum lífsins, hægðum og lægðum, það er nóg. Það er ekki alltaf auðvelt en líka oft alveg fullkomlega frábært, það er alls konar. Stundum færir lífið vígaleg verkefni þar sem áskorunin felst í að njóta tímans meðan lífsklukkan telur niður. Á sama tíma sorg og gleði, þakklæti og reiði, hugurinn sjö skref fram og svo handbremsubeygja beinustu leið í núið. Samtímis gott og vont að vera, já alls konar.
Mannskepnan er svo stórkostleg í ófullkomleika sínum en óskaplega er það ósanngjarnt hversu óvægin við erum oft við okkur sjálf. Það er engin skortur á fólki allt um kring sem tilbúið er að dæma og deila misgóðum skoðunum. Gagnvart því fólki hefur maður val og öðlast blessunarlega aukna færni með aldrinum en eftir situr oft eigin dómharka. Stundum fellum við varnirnar og látum síbylgju af áreiti og stanslausum stöðuuppfærslum af samferðafólkinu ýta undir vanlíðan og samanburð. Tökum inn fréttirnar sem færa hamfarirnar í röðum og það að heimurinn versnandi fer. En kúnstin er að taka inn augnablikið en leyfa því ekki að heltaka sig. Grípa æðruleysið, þrusast í gegnum þakklætismöntrunar og staupa sig hressilega á blómadropunum, já já þetta er dr. Anna sem skrifar frá miðaldrastöðum (lesist með rödd Gissurar Sigurðssonar).
Hraðinn, atgangurinn og álagið ætlar kynslóðina nú um koll að keyra. Já eða ættgengur dugnaðurinn okkur að drepa. Við eigum að vera út um allt og alls staðar, nasablaktandi að njóta, sinna sjálfum okkur og öðrum, alltaf að þjóta en með sælubrosi sjálfsræktar fullnægingar. Eða hvað? Ekki misskilja mig, ég er bara í flæði í fullkomnu krísustandi og veit ekkert, en núna þarna í miðjunni að minnsta kosti að reyna.
Fyrst í stjórnlausu flæði hendum í eina kyngimagnaða klisju svona í lokin. Ef eitthvað er augljóst þegar horft er í baksýnisspegilinn er það þegar maður fær lífið lóðbeint á lúðurinn og lendir í hakkavélinni, hversu dýrmætir erfiðleikarnir eru í kistunni. Þeir færa manni meðal annars skýra sýn á fjársjóðinn sem fólkið manns er sem og líka raunverulegt eðli annarra. Að fylgjast svo með öðrum takast á við erfiðleika og jafnvel opinbera vanmátt sinn við verkefnið finnst manni oft viðkomandi í veikleika sínum aldrei hafa verið sterkari og aðdáunin í hámarki. Merkilegt!
Eins yfirþyrmandi og foreldrahlutverkið getur verið í öllum þessum atgangi er einnig stórkostlegt að fá að vera til staðar í hringiðunni. Hlæja og gráta saman í sigrum og sorgum, í sátt og sannleika við tilfinningarnar. Maður er ekki alltaf með þetta en svo sannarlega eins og við flest að reyna sitt besta þrátt fyrir allt.
Sé ég á hlaupum í Kjarnaskógi er það ekki af þeim sökum að ég sé að stunda hraðstefnumót á hlaupanámskeiði eða berjast við að bæta maraþon tímann. Heldur meira að stela stund til að vera, á tilfinninga tölti örugglega með hausinn á hundraði, já eða bara í fyrirbyggjandi eða viðbragðs aðgerðum vegna fjólublárrar skapsveifluviðvörun unglingastigsins. Ást og friður sé með yður.
Næstu greinaskrif fel ég frænda mínum Einari Hafliðasyni.